154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

öryggi Íslands með áherslu á norðurslóðir.

[15:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Mig langar að taka hérna upp nokkur mál, fyrst varðandi upplýsingagjöf um öryggis- og varnarmál. Hún hefur verið aukin, bæði gagnvart þinginu og almennt og þingmenn hafa verið duglegir að spyrja um varnar- og öryggismál og þingið er upplýst nákvæmlega til að mynda um viðveru liðsafla á öryggissvæðinu í Keflavík. Ég fagna hverju einasta tækifæri sem ég fæ til að ræða öryggis- og varnarmál og sérstaklega í þessum sal og myndi gjarnan vilja gera meira af því.

Aðeins varðandi NORDEFCO og sýn til 2030, það snýst um að efla gistiríkjaþjónustu, birgða- og liðsflutninga til að styðja aðgerðir bandalagsins, efla samráð um þróun öryggismála, stöðumat og viðbúnað, styrkja sameiginlega getu til að framkvæma og stýra sameiginlegum aðgerðum og tryggja skilvirka liðsflutninga yfir landamæri og takmarka lagalegar hindranir. Mér finnst skipta máli hér að minna okkur á það að við erum ekki hlutlaus og höfum ekki verið síðan árið 1949. Við erum sjálfstæð, við erum ekki hlutlaus. Við tryggjum einmitt sjálfstæði okkar með veru okkar í Atlantshafsbandalaginu og með því að hingað komi einhverjir til aðstoðar ef eitthvað bjátar á. Þess vegna er í mínum huga umræðan um vopnakaup og okkar þátttöku, litlu og takmörkuðu þátttöku í því, stundum dálítið undarleg vegna þess að ég geri ráð fyrir því að við öll hér vonumst eftir því að Bandaríkjamenn myndu senda okkur annað en stoðtæki og teppi ef svo ólíklega færi að ráðist yrði á okkur. Og það er líka ágætt að hugsa um það að til að mynda Litáen hefur aukið varnarútgjöld sín um 300% frá árinu 2014. Þetta hafa þau ekki gert af því að þau vilja stigmögnun eða stríð heldur endurspeglar það hversu heitt þau vilja koma í veg fyrir að missa frelsið sem þau fengu síðast og heyra rússnesk stjórnvöld segja á hverjum degi að sé raunverulega ekki þeirra og það sé undir Rússum sjálfum komið hvenær það verði tekið aftur af þeim. Þess vegna finnst mér skipta máli að við tökum hér öryggis- og varnarmálum alvarlega, (Forseti hringir.) að við fullorðnumst og við leggjum það af mörkum sem þarf til þess að teljast raunverulega verðugur bandamaður.