154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

öryggi Íslands með áherslu á norðurslóðir.

[14:58]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Herra forseti. Mig langar til að byrja á því að þakka fyrir þessa upplýsandi og góðu umræðu sem hér hefur átt sér stað. Frá henni tek ég nokkur aðalatriði. Nú þegar öll Norðurlöndin eru orðin aðildarríki NATO þá er auðvitað mikilvægt, eins og hér kom fram, að endurskoðun Helsinki-samkomulagsins svokallaða breytist með tilliti til þess. Það breytir í raun eðli Norðurlandasamstarfsins og það er auðvitað eitthvað sem þarf að ræða hér á dýptina. Það er auðvitað líka, og ég tek undir þau orð sem hér voru sögð, mjög mikilvægt að þessi málefni séu rædd hér í þinginu og fái þinglega meðferð. Ég hef það á tilfinningunni, og hef svo sem engar tölulegar upplýsingar til að styðja mál mitt, að það sé minna um það að við ræðum um utanríkisstefnu, utanríkismál og öryggismál hér í þessum sal en áður var gert.

Hvað varðar björgunargetu í Norður-Atlantshafi og hlutverk Íslands þar þá er það auðvitað risavaxið stefnumótandi verkefni sem verður fróðlegt að heyra hvað hæstv. ráðherra hefur að segja um. Ef það er ákvörðun Íslands að fjárfesta í slíku samstarfi eða vera brautryðjandi í því þá er það meiri háttar ákvörðun sem kallar auðvitað á mikil útgjöld.

Ég er sammála hæstv. ráðherra um að við eigum að vinna heimaverkefnin okkar vel. Þau eru hér. Við eigum að sjá um netöryggið og fjarskiptin og allt það sem eðlilega á heima hér og er hægt að gera með íslensku hugviti. En það er líka mikilvægt að setja þau verkefni í samhengi við loftslagsmálin og aðgerðir í loftslagsmálum vegna þess að það er jafn mikilvægt öryggismál og annað sem hér hefur verið nefnt og hefur áhrif á allt umhverfi okkar, hvort sem það er í varnarsamstarfi eða öðru alþjóðasamstarfi.