154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

öryggi Íslands með áherslu á norðurslóðir.

[14:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Eins og ég nefndi hér í fyrri ræðu tel ég mikilvægt að framlag Íslands til norðurslóðamála felist ekki hvað síst í viðbúnaði varðandi björgun og leit og slíkt, og þetta hafa fleiri hv. þingmenn nefnt. En til að svo megi verða þarf að efla Landhelgisgæsluna, ekki draga úr hjá henni heldur miklu frekar efla hana, ekki hvað síst á Norðurlandi og Austurlandi. Það ætti að geta talist framlag okkar til varnar- og öryggismála á norðurslóðum. Íslendingar þekkja það að á meðan bandaríski herinn var hér með sína viðveru þá björguðu herþyrlur Bandaríkjamanna fjölmörgum Íslendingum, ekki hvað síst úr sjávarháska. Það var hluti af útgjöldum Bandaríkjanna til varnarmála að halda úti þeirri starfsemi. Þess vegna þætti mér eðlilegt að uppbygging okkar Íslendinga á sviði björgunarmála á norðurslóðum væru okkar framlag að einhverju leyti til þátttökunnar í NATO og öðru varnarsamstarfi sem við erum þátttakendur í, m.a. með og ekki hvað síst auðvitað Bandaríkjunum. Þess vegna væri áhugavert að heyra frá hæstv. utanríkisráðherra hvort ráðherrann telji að aukin áhersla á getu okkar á þessu sviði, efling Landhelgisgæslunnar á Norðurlandi og Austurlandi sérstaklega, geti ekki verið til marks um það að við Íslendingar séum að taka þátt, séum að taka þróunina alvarlega og leggja okkar af mörkum í samstarfi þjóða um norðurslóðir, leggja okkar af mörkum á jákvæðan hátt.