154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

öryggi Íslands með áherslu á norðurslóðir.

[14:54]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þetta hefur verið áhugaverð umræða hér og fókusinn, eðli málsins vegna, m.a. á Atlantshafsbandalagið og varnarsamning okkar við Bandaríkin. En við þurfum líka í þessu samhengi að huga að heimavörnum. Við erum með starfandi alþjóðadeild innan lögreglunnar, við erum með landhelgisgæslu og við þurfum að huga að þessari skörun á þeim tímum sem við lifum nú. Það skiptir miklu máli þegar kemur að vörnum landsins að almenn löggæsla í landinu sé byggð upp með þeim hætti að öryggi fólks sé tryggt eins og best er á kosið. Við erum vissulega herlaus þjóð en það er hættulegt að vera hér með undirmannaða, undirfjármagnaða lögreglu ár eftir ár. Þegar við erum að tala um þær ógnir sem að okkur steðja, hvort sem það er frá ríkjum, einstaklingum eða skipulögðum hópum, þá skiptir auðvitað máli að það sé gott og öflugt samstarf á milli utanríkisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis í þessu tiltekna samhengi.

Miðað við núverandi fjármálaáætlun gerir lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ráð fyrir því að þurfa að skera niður um eitthvað á bilinu 8–15 stöðugildi lögreglumanna. Við erum sem sagt á sama tíma og ógnir eru að aukast að skera niður í grunnvörnum landsins. Það er auðvitað áhyggjuefni og eitthvað sem að mínu mati er utanríkisráðherra ekki óviðkomandi vegna þess að ef grunnvarnir okkar eru ekki í lagi þá er tómt mál að tala um að öryggis okkar sé gætt við það eitt að tryggja öðrum að sinna því. Þannig að þetta er að mínu mati nokkuð sem er mikilvægt að við ræðum í þessu samhengi: Hvað gerum við sjálf með okkar heimavörnum og er þetta rétti tíminn til að fara í niðurskurð þar? Ég segi nei.