154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

öryggi Íslands með áherslu á norðurslóðir.

[14:51]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Það voru mikil mistök þegar Bandaríkin lokuðu herstöð sinni á Miðnesheiði árið 2006 að nota ekki tækifærið og segja upp varnarsamningnum. Þess í stað, og einkum í kjölfar þeirra viðbótarbókana sem undirritaðar voru af utanríkisráðherra í ríkisstjórnartíð Framsóknar og Sjálfstæðisflokks árin 2013–2016, er staðan sú í dag að varnarsamningurinn veitir Bandaríkjamönnum í praxís sjálfdæmi um það hversu mikinn viðbúnað þeir vilja hafa í og við landið. Það mat byggist að sjálfsögðu, eins og það hefur alltaf gert, á eigin hagsmunamati Bandaríkjanna hverju sinni, ekki öryggishagsmunum Íslands. Raunverulegir hagsmunir Íslands eru þeir að gera allt sem í okkar valdi stendur til að halda norðurslóðum sem lágspennusvæði. Lykilatriði í því efni er að takmarka vígbúnað á svæðinu. Stefna NATO og Bandaríkjanna á liðnum árum hefur hins vegar gengið í þveröfuga átt.

Við eigum að efla þær stofnanir sem starfa á borgaralegum grundvelli en ekki hernaðarlegum. Þess vegna er slæmt að Norðurskautsráðið nái ekki að vera sá vettvangur samvinnu allra landa á svæðinu sem lagt var upp með og ég vona að Noregi takist að koma samstarfi í vísindarannsóknum aftur í gang því það er mikilvægt.

Stighækkandi framlög til hernaðarmála, líkt og kallað er eftir, er ekki bara hættuleg sóun á tímum þar sem ótal brýn verkefni bíða mannkyns, svo sem loftslagsmál og útrýming fátæktar, heldur stuðla þau beinlínis að óöryggi og stríðum. Vopnakapphlaup og hækkandi framlög til hernaðarmála er ekkert annað en vopnakapphlaup og (Forseti hringir.) auka ekki öryggi Íslands. Þau auka ekki öryggi neins í heiminum.