154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

öryggi Íslands með áherslu á norðurslóðir.

[14:49]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Sjaldan hefur verið meiri aukning í hernaðarumsvifum hér á landi en síðasta áratuginn. Vandinn er bara sá að sú aukning er falin í fótnótum og skrúðyrðum þannig að ég er ekki viss um að almenningur geri sér grein fyrir því, jafnvel að fólk hér innan húss átti sig ekki á því.

Tökum dæmi: Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar með fjármálaáætlun fyrir fimm árum var lagt til að færa 300 milljónir frá þróunaraðstoð til varnarmála til að sinna viðhaldi á varnarmannvirkjum á Keflavíkurvelli. Kom svo í ljós að þetta var mótframlag íslenskra stjórnvalda til nýframkvæmda upp á 7 milljarða á vellinum. Síðan þá hefur verið framkvæmt fyrir tugi milljarða á Keflavíkurvelli. Þá hefur viðvera herliðs verið dagleg frá árinu 2015, að meðaltali nærri 300 hermenn á dag síðustu ár. Þetta gerist á því sem á íslensku er kallað öryggissvæði af ráðuneytinu en í enskum texta ráðuneytisins heitir það í Keflavík „air base“. Það er herstöð, forseti, á íslensku. Þetta gerðist án umræðu hér. Þetta gerðist án umræðu í samfélaginu. Þetta gerðist á einhverjum skrifborðum í ráðuneytum. Það getum við ekki sætt okkur við. Þannig var varnarsamningurinn uppfærður án umræðu 2016 borið saman við þá þinglegu meðferð sem hann fékk í Noregi þegar hann var uppfærður fimm árum síðar. Og svo framlögin, forseti; 1.550 milljónir árið 2017 fóru upp í 3 milljarða árið 2022. Þetta er tvöföldun áður en Úkraína kemur til. Og svo 5 milljarðar á þessu ári. Þetta er þreföldun í tíð þessarar ríkisstjórnar (Forseti hringir.) án umræðu.

Aukin umsvif hernaðar á norðurslóðum haldast í hendur við auðlindagræðgina sem hv. frummælandi (Forseti hringir.) nefndi hér. Við getum ekki staðið fyrir aukinni hernaðaruppbyggingu á norðurslóðum en á sama tíma barist fyrir því að náttúran (Forseti hringir.) og umhverfið sé látið í friði. Við verðum að taka þessa umræðu á dýptina.