154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

öryggi Íslands með áherslu á norðurslóðir.

[14:46]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga málefni og hæstv. utanríkisráðherra fyrir greinargóðar upplýsingar. Það þarf ekkert að fjölyrða um þær breytingar sem hafa átt sér stað í öryggis- og varnarmálum á undanförnum tveimur árum. Það er áhyggjuefni að hafið sé nýtt kalt stríð, ekki bara á okkar slóðum heldur má leita víða um heiminn og sjá pólaríseringu og stigmögnun sem er verulegt áhyggjuefni. Nærtækast er að nefna tilkynningu Rússa nýlega um að hefja æfingar og notkun taktískra kjarnorkuvopna. Því miður hefur maður áhyggjur af því að hér sé einhvers konar upptaktur að einhverju stærra og meira og verra.

Það er frumskylda stjórnvalda á hverjum tíma að tryggja með öllum leiðum öryggi samfélagsins. Það er mín skoðun að efling Landhelgisgæslunnar sé líklega veigamesta verkefnið okkar á þessum tímum. Gæslan sinnir auðvitað leit og björgun og gistiríkjastuðningi og löggæslu á gríðarlega stóru hafsvæði sem skiptir okkur og vinaþjóðir okkar í grenndinni gríðarlega miklu máli. Það er raunar fagnaðarefni að umræða um öryggis- og varnarmál sé að aukast hér á landi og höfum við hér á þingi kallaði eftir því nú um langt skeið. Við sjáum það til að mynda á umfjöllun fjölmiðla sem er farin að taka verulega við sér.

Virðulegi forseti. Hér var nefnt 2% markmið NATO-ríkjanna um útgjöld til varnarmála. Ég verð að segja að ég held að við eigum töluvert langt í land þar en legg til að við hugum að því í alvöru að útbúa langtímaplan um hvernig við ætlum að efla, og þá segi ég stórefla, fjármagn til að mæta þeim ógnum sem að okkur steðja og velja til að mynda fjölþáttaógnir og netöryggi (Forseti hringir.) og reyna að efla það og vera virkir þátttakendur í okkar alþjóðasamstarfi.