154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

öryggi Íslands með áherslu á norðurslóðir.

[14:44]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Í framhaldi af því sem hér hefur verið sagt og því sem ég sagði áðan þá ætla ég að biðja hæstv. utanríkisráðherra, hafandi nýverið tekið við sínu utanríkisráðherraembætti aftur á ný, um að hrinda nú í framkvæmd því sem brýnast er akkúrat í dag, þeim netvörnum og þeim samningum sem gera þarf við gervihnattafyrirtæki og aðra aðila til að fyrirbyggja að hér sé hægt að lama allt samfélagið, allt heilbrigðiskerfið, alla innviði með einni færslu á lyklaborði. Það er frumatriði. Það er auðvitað á vettvangi fleiri ráðuneyta en utanríkisráðuneytis en frumkvæðið þarf að líkindum að koma þaðan í ljósi aðstæðnanna sem við erum að horfast í augu við um víða veröld, getum við sagt. Það er óhuggulegt að hafa verið kastað skyndilega aftur í þá villimennsku sem afar okkar og ömmur ólust upp við og foreldrar okkar einhverra líka í heimsstyrjöldum 20. aldarinnar. Við erum komin á þann stað aftur að mennskan hefur þurft að víkja fyrir villimennskunni og blóðið er á tönnum milljóna sem geta gripið til örþrifaráða eða varna eða ögrana af ýmsum toga og því miður eru samstarfsþjóðir okkar ekki saklausar af því í þessu samhengi að kunna að hafa ögrað þeim sem síst skyldi. Þess vegna legg ég áherslu á „mind your own business first“, með leyfi forseta. Huga skal að eigin hagsmunum fyrst. Tvíhliða varnarsamningur við Bandaríkin er eins og hver annar brandari. Erum við að fara að verja þá? Þeir geta varið okkur en við aldrei þá. Hugum að leiðum til að verða sjálfstæðari í þessum efnum, hugum að leiðum til þess að fara að taka frá peninga (Forseti hringir.) til að mæta kröfum herra Trumps, Drumpfs, (Forseti hringir.) um aukin framlög okkar til NATO og annarra þjóða (Forseti hringir.) og finnum leiðir til að fælingarmáttur okkar verði meiri en hann er í dag af eigin rammleik.

(Forseti (ÁsF): Ég minni þingmenn á að halda ræðutímann.)