154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

öryggi Íslands með áherslu á norðurslóðir.

[14:39]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda fyrir að efna til þessarar mikilvægu umræðu. Við áttum okkur öll á því að yfirstandandi átök í Evrópu eru mjög mikil áminning um að við Íslendingar þurfum að taka öryggis- og varnarmál okkar mjög alvarlega. Við höfum sjálfsagt ekki staðið frammi fyrir jafn mikilli ógn í marga áratugi. Innrásarstríðið í Úkraínu hefur minnt okkur rækilega á að þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu og tvíhliða samning við Bandaríkin þarf að rækta og uppfæra með reglulegum hætti. Sá veruleiki að öll hin Norðurlöndin eru nú innan NATO gefur þá auðvitað möguleika á enn þéttara samstarfi, t.d. með langtímastefnu um norrænt varnarsamstarf, NORDEFCO, og þar á Ísland að vera virkur þátttakandi.

Herra forseti. Það hefur verið mikið rætt um það af alls konar sérfræðingum að innrásarstríð Rússa í Úkraínu hafi afhjúpað veikleika í hernaðargetu þeirra og að langvarandi stríð gangi enn á þá getu. En það vill stundum gleymast að rússneski flotinn er öflugur sem aldrei fyrr og er nokkuð ósnortinn af þessum stríðsrekstri. Í skjóli stríðsins hafa Rússar verið að færa sig upp á skaftið, bæði með njósnum og viðamikilli kortlagningu á innviðum á svæðinu. Þessu hafa frændur okkar Norðmenn orðið rækilega fyrir barðinu á. Hafsvæðið umhverfis og norðan við Ísland er gríðarlega mikilvægt, jafnt öryggislega og vistfræðilega, auk þess sem það gegnir auðvitað lykilhlutverki þegar kemur að lífsviðurværi okkar og nágrannaþjóða okkar. Það skiptir okkur þess vegna miklu máli að endurvekja með einhverjum hætti hlutverk Norðurskautsráðsins en alls ekki síður að vinna markvisst með bandalagsríkjum okkar að því að auka eftirlit á svæðinu umhverfis landið, ekki síst með kafbátaumferð Rússa.