154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

öryggi Íslands með áherslu á norðurslóðir.

[14:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þegar ég hóf þátttöku í stjórnmálum fyrir hálfum öðrum áratug var mikið rætt um norðurslóðir og mikilvægi þeirra en þá var viðkvæðið jafnan hversu ánægjulegt það væri og mikilvægt að það hefði tekist að koma í veg fyrir að deilur ríkja færðust inn á það svæði og það þyrfti að tjalda öllu til til að tryggja að svo yrði áfram. Nú eru því miður blikur á lofti hvað það varðar, ekki hvað síst í samskiptum stórveldanna í framhaldi af innrás Rússlands í Úkraínu. Það er áminning til okkar um að við tryggjum öryggi okkar með þeim leiðum sem við höfum bestar, m.a. auðvitað með áframhaldandi virkri þátttöku í NATO og samstarfi við Bandaríkin um öryggishagsmuni Íslands, en þó ættum við fyrst og fremst að gera það með því að leggja áherslu á, eins og nokkrir hv. þingmenn hafa nefnt hér, hlutverk okkar sem friðsællar þjóðar sem einbeitir sér að björgunaraðgerðum á þessu svæði. Það verði framlag okkar til svæðisins til viðbótar við þann pólitíska þátt sem felst í því að styðja við frumbyggja og annað sem við höfum beitt okkur fyrir á sviði Norðurlandaráðs og í norðurslóðamálum.

Aðalatriðið er því þetta, herra forseti, að við viðhöldum þrátt fyrir nýjustu atburði þeirri stöðu sem við höfum haft sem friðsæl þjóð sem vill leggja sitt af mörkum, til að mynda og ekki hvað síst í því formi að bjarga og hjálpa, fremur en að dragast inn í átök stórvelda.