154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

öryggi Íslands með áherslu á norðurslóðir.

[14:28]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ísland er mjög berskjaldað sem eyja í Norður-Atlantshafi í návígi við svæði þar sem hagsmunir allra stærstu ríkja heims mætast. Við erum ekki með her og við höfum og munum ávallt kjósa frið. Hvað öryggi þjóðarinnar varðar þá reiðum við okkur á milliríkjasamvinnu og samstarf á sviði varnarmála. Í varnar- og öryggismálum skiptir vettvangur NATO okkur öllu máli. Ísland er einn stofnmeðlima Atlantshafsbandalagsins sem sinnir mikilvægu öryggishlutverki, m.a. bara með tilvist sinni. Máttur sambandsins og 5. gr. Atlantshafssáttmálans hefur fælandi áhrif á ríki utan NATO sem stuðlar ekki einungis að öryggi Íslands sem aðildarríkis heldur einnig að heimsfriði almennt, því árás á okkur væri árás á Bandaríkin, Bretland, Kanada, Frakkland, Þýskaland og fleiri lönd.

Norðurslóðir hafa mikla þýðingu fyrir Ísland, hvort sem er litið til umhverfis- eða öryggismála eða efnahagslegra eða félagslegra þátta, og er því mikilvægt að svæðið einkennist áfram af stöðugleika, sjálfbærni og samvinnu. Það er mikilvægt að viðhalda samstarfi ríkja á norðurslóðum um sameiginlega hagsmuni þeirra. Friður á norðurslóðum skiptir okkur öll máli í stóru myndinni og nú eru öll Norðurlöndin í NATO, sem stuðlar að samvinnu um frið á norðurslóðum, bæði í nútíð og framtíð. Með aðild að NATO er lítið eyríki í miðju Atlantshafi ekki berskjaldað landsvæði sem aðrir aðilar gætu léttilega ráðist á eða tekið yfir skyldu þeir vilja. NATO er mikilvægur samskiptavettvangur aðildarríkjanna um öryggismál á alþjóðavísu, t.d. hvað varðar öryggi í upplýsingatækni á alnetinu en með sífelldri tækniþróun reiðum við okkur meira og meira á alnetið og tæknina í rekstri ríkisins, fyrirtækja og heimila. Við það opnast nýjar gáttir fyrir aðila sem hyggjast nýta tæknina í annarlegum tilgangi, t.d. fyrir hakkara og jafnvel nethryðjuverkamenn. Það efast varla neinn um nauðsyn þess að Ísland sé þátttakandi á þeim vettvangi þar sem unnið er að fyrirbyggjandi aðgerðum og lausnum við nýrri og háþróaðri glæpastarfsemi.