154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

öryggi Íslands með áherslu á norðurslóðir.

[14:26]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir umræðuna. Hún er mikilvæg. Ég held að við þurfum samt að tala hér varlega og sefa áhyggjur þeirra fjölmörgu sem hafa verið að hlusta hér á óhefta boðun kjarnorkustríðs gegn Íslandi í umræðum vegna yfirvofandi forsetakosninga. Auðvitað vitum við ósköp vel að við höfum notið góðs af NATO svo lengi sem við höfum verið þar. Því fylgja að sjálfsögðu bæði kostir og gallar að tilheyra slíku bandalagi. Það eykur á vissan hátt hættuna á því að athyglin beinist óþægilega að okkur og við höfum auðvitað gert okkur grein fyrir því fyrir löngu síðan að Bandaríkjamenn hugsa auðvitað fyrst um sig og svo um okkur og svo verður að óbreyttu áfram.

Ég hef nefnt það hér á þessum stað áður að við gætum sem vísast búið til fælingarmátt og þróað með okkur á laun eitthvað sem heitir á ensku „power beaming“, einhvers konar viðbúnað sem spyrðist út með þeim hætti að það væri ekki talið æskilegast að hrófla mikið við þessu eylandi hér. En um það skulum við ekki fjölyrða hér. Ég held að við þurfum að gera sitthvað á eigin spýtur, jafnvel í samstarfi við Norðurlöndin. En við þurfum líka að fullvissa íslensku þjóðina um það að við séum ekki í bráðri hættu, sérstaklega eftir þær glannalegu umræður sem við hlýddum á í mjög miklu áhorfi í ríkissjónvarpinu um síðustu helgi og ég hvet utanríkisráðherra til að stíga markviss skref í átt að því að við getum orðið enn rólegri yfir örlögum okkar í náinni framtíð.