154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

öryggi Íslands með áherslu á norðurslóðir.

[14:20]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir að efna til umræðu um öryggis- og varnarmál í víðu samhengi. Gjörbreytt umhverfi í öryggis- og varnarmálum dylst engum. Við stöndum frammi fyrir blóðugu árásarstríði Rússlands í Úkraínu, hörmungum og átökum í Miðausturlöndum og víða er aukin fátækt og fæðuóöryggi sem hæglega gæti leitt til frekari átaka. Hart er sótt að alþjóðalögum, mannréttindum og þeim grunngildum sem hafa skapað hagsæld og frið fyrir okkur. Þessi þróun hefur mikil áhrif á okkur og okkar nærumhverfi og við erum ekki ónæm fyrir því. Við búum að aðildinni að Atlantshafsbandalaginu, tvíhliða varnarsamningnum við Bandaríkin og öflugu samstarfi við helstu grannríki um öryggis- og varnarmál.

Hvað varðar fyrstu spurningu hv. þingmanns um stöðu varnarsamningsins við Bandaríkin þá vil ég segja að samstarf við Bandaríkjamenn, sérstaklega um varnarmál, hefur sennilega ekki verið eins náið frá brottför varnarliðsins árið 2006. Utanríkisráðuneytið á virkt og mjög reglulegt samráð við bandarísk yfirvöld á öllum stigum og nýlega átti ég fund með varautanríkisráðherra Bandaríkjanna sem var mjög góður og efnismikill og skýr skuldbinding. Það starfar nú sérstakur hermálafulltrúi í fyrsta sinn í sendiráði okkar í Washington sem sinnir samstarfi við þarlend hermálayfirvöld. Bandaríkin hafa ríka hagsmuni af því að öryggi Íslands sé tryggt og hafa öðrum fremur sýnt í verki getu og vilja til að standa vörð um sameiginlegar varnarskuldbindingar innan Atlantshafsbandalagsins og í okkar tvíhliða samstarfi.

Tvíhliða samstarfið byggist á gagnkvæmum og skýrum varnarhagsmunum okkar og Bandaríkjanna við að tryggja öryggi Norður-Atlantshafsins, sem skiptir máli fyrir varnir Norður-Ameríku og Evrópu, en það er svo sem ekki nýtt af nálinni, þrátt fyrir að tónn frambjóðandans sé sérstakur með eindæmum, að stjórnmálaleiðtogar í Bandaríkjunum kalli eftir auknum framlögum og þátttöku í sameiginlegum vörnum eins og komið hefur fram á síðustu mánuðum. Breytt öryggisumhverfi og nauðsyn þess að jafna byrðarnar hafa orðið þess valdandi að nær öll Evrópuríki hafa aukið útgjöld sín til varnarmála enda einsýnt að öryggisáskoranir samtímans verða ekki leystar nema í þéttu samstarfi allra lýðræðisríkja og þar sem fælingarmáttur svæðisins þarf að vera skýr og augljós. Við sjáum hér skuldbindingu líka í verki, til að mynda með fyrirhuguðum fjárfestingum á Keflavíkursvæðinu sem aftur snúa ekki að okkur endilega per se, þ.e. öryggi okkar hér, heldur einmitt vegna þess hvar við erum staðsett.

Spurning hv. þingmanns snýr sömuleiðis að því hvort ég muni beita mér fyrir aukningu í framlögum til varnarmála til samræmis við markmið Atlantshafsbandalagsins. Stutta svarið er já. Við höfum tekið undir mikilvægi þess að auka framlög innan bandalagsins og þótt skilningur sé alger á sérstöðu Íslands sem herlauss ríkis, þ.e. það er sameiginlegur skilningur á því að tvö prósentin eigi ekki við um land sem ekki er með her, er ekki þar með sagt að 0,1% sé sú tala sem við eigum að miða að, hvorki endilega út frá Atlantshafsbandalaginu né bara ef við spyrjum okkur sjálf. Þessi sérstaða hefur legið fyrir frá því við gengum í bandalagið árið 1949.

Á síðustu árum hafa engu að síður framlög til varnarmála hérlendis farið hækkandi, fyrst og fremst til að bæta gistiríkjaþjónustu og styrkja innviði á Íslandi til að styðja við aðgerðir, viðveru og eftirlit bandalagsríkja á Norður-Atlantshafi. Við höfum verið að efla þátttöku okkar í starfi bandalagsins en ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að gera meira sjálf og huga betur að okkar öryggismálum í víðu samhengi og nefni hér til að mynda netöryggismálin sem eru algerlega heimaverkefni og ekki annarra að sjá um og sömuleiðis að við séum með framúrskarandi aðstöðu til þess að við getum tekið á móti bæði til æfinga en líka að ef hlutir fara á versta veg þá eigum við þá vinnu ekki eftir.

Hv. þingmaður víkur sömuleiðis að stöðu Norðurskautsráðsins nú þegar samstarfið þar hefur að miklu leyti legið niðri í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. Ekkert pólitískt samráð hefur átt sér stað með þátttöku Rússa eftir 22. mars árið 2022. Afmarkað vísindalegt samráð og samstarf hefur verið í gangi, sérstaklega frá því að Noregur tók við formennsku í ráðinu, frá því í maí 2023. Ráðið gegnir þannig áfram sínu hlutverki fyrir mikilvægt vísindasamstarf á norðurslóðum. Íslensk stjórnvöld eru mótfallin því að ráðið verði vettvangur fyrir pólitískt samráð á meðan Rússland gengur fram með þessum hætti og það bendir fátt til að svo geti orðið á næstunni.

Að lokum er spurt hvort nægilega sé gætt að umhverfis- og öryggishagsmunum á hafsvæðinu í kringum landið á norðurslóðum. Í ljósi mikilvægis hafsins fyrir okkur er óhætt að segja að þar getum við alltaf gert betur. Ísland hefur um langt skeið verið öflugur málsvari hafréttarins og sjálfbærrar nýtingar sem er auðvitað grunnurinn að okkar hagsmunagæslu og friðsamlegri þróun á norðurslóðum. Í formennskuáætlun okkar í Norðurlandaráði er fyrirsögnin, og þar með áherslan: Friður og öryggi á norðurslóðum. (Forseti hringir.) Þetta finnst mér mikilvægt og endurspeglar okkar áherslur (Forseti hringir.) en við horfum framan í nýjar áskoranir og hættur sem við þurfum að bregðast við, bæði við sjálf og í samstarfi við aðra.