154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

öryggi Íslands með áherslu á norðurslóðir.

[14:15]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að samþykkja þessa umræðu um öryggi Íslands með áherslu á norðurslóðir. Í þjóðaröryggisstefnu eru tiltekin 12 áhersluatriði sem öll hafa jafnt vægi. Meðal þeirra er aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin sem verða að teljast lykilstoðir í þjóðaröryggi landsins. En varnir Íslands eru ekki einungis bundnar við hernaðarlegar varnir. Að okkur steðja margvíslegar hættur og öryggi Íslands verður aldrei aðskilið frá beinum og óbeinum ógnunum vegna hamfarahlýnunar. Súrnun og hækkandi hitastig sjávar í hafinu umhverfis landið og áhrif þess á lífríki hafsins er verulegt áhyggjuefni. Öryggishagsmuna okkar þarf því ekki síður að gæta þegar kemur að umhverfismálum. Fjölþáttaógnir eru viðfangsefni hér eins og annars staðar. Stríðið á Gaza, innrásin í Úkraínu og borgarastyrjöldin í Súdan eru dapurlegur vitnisburður um algert virðingarleysi fyrir alþjóðalögum og sýna okkur að alþjóðakerfið eins og við þekkjum það og höfum þekkt það áratugum saman stendur á brauðfótum. Það er svo að segja ófært um að stilla til friðar.

En víkjum að varnarsamningi Íslands við Bandaríkin. Á árlegum samráðsfundi ríkjanna um öryggis- og varnarmál í síðustu viku var mikilvægi gagnkvæmra varnarskuldbindinga landanna áréttað. Við getum þó ekki, forseti, horft fram hjá stöðunni í innanlandsstjórnmálum í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum og glannalegum yfirlýsingum annars frambjóðandans. Staðreyndin er að staða innanríkismála í Bandaríkjunum gerir það ekki lengur að hinu stöðuga stórveldi sem einu sinni var. Hvernig metur hæstv. utanríkisráðherra stöðu varnarsamningsins í þessu tilliti?

Á samráðsfundinum var m.a. rætt um þróun öryggismála á norðurslóðum samkvæmt frétt á vef utanríkisráðuneytisins. Ég vil nota þetta tækifæri og spyrja hæstv. ráðherra nánar út í þær viðræður og áform um aukinn viðbúnað og eftirlit á Norður-Atlantshafi. Það liggur fyrir að aðildarríki NATO hafa sammælst um að verja 2% af þjóðarframleiðslu til varnarmála. Það er jafn ljóst, forseti, að þátttaka Íslands í starfsemi bandalagsins getur aldrei orðið nema á borgaralegum forsendum. Það er því ástæða til að spyrja ráðherrann með hvaða hætti stjórnvöld hyggist ná þessu markmiði og hvenær.

Málefni norðurslóða eru í brennidepli. Þar geisar hamfarahlýnun eins og hvergi annars staðar á jörðinni og það sem áður þótti óhugsandi á sér stað. Sífrerinn lætur undan og losar metan með hrikalegum afleiðingum. Sama má segja um bráðnun norðurskautsins og Grænlandsjökuls. Hér eru gríðarlegir öryggishagsmunir undir fyrir Ísland og því ástæða til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hún telji öryggishagsmuna Íslands gætt með fullnægjandi hætti á norðurslóðum.

Þessu tengist samstarf okkar innan Norðurskautsráðsins við sjö aðrar þjóðir sem liggja norðan 62. breiddargráðu. Það er lamað vegna innrásar Rússlands í Úkraínu en Norðurskautsráðið var mikilvægur vettvangur vísindasamstarfs og rannsókna og friðsamlegrar nálgunar í samskiptum milli ríkja á norðurslóðum. Telur hæstv. utanríkisráðherra að Norðurskautsráðið eigi sér viðreisnar von við þessar aðstæður?

Nýrri langtímastefnu um norrænt varnarsamstarf, sem er víst kallað NORDFECO, er ætlað að efla sameiginlega varnargetu Norðurlandanna og sameiginlegt framlag þeirra innan NATO. Rætt er um mikilvægi þess að viðhalda svokallaðri stöðuvitund og fælingarmætti Norðurlandanna með þessu samstarfi. Af þessu tilefni er ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig þessu verði fylgt fram og í hverju hið norræna varnarsamstarf muni felast.

Að lokum, forseti: Ekkert ógnar friði í heiminum eins og vaxandi ójöfnuður, auðlindagræðgi og efnahagsleg misskipting á milli landa. Lýðræðið fer halloka og öfgaöfl vaða uppi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum hér í Evrópu sem og annars staðar. Það ógnar einnig öryggi Íslands.