154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

Störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Eva Dögg Davíðsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Orð hafa vægi. Í dag stendur til að ræða aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu og því finnst mér vel við hæfi að ræða tungumálið í tengslum við réttindabaráttu og innlimun jaðarsettra í tungutakið. Eftir mikla baráttu, sem hefur skilað sér í auknum réttindum hinsegin fólks í mörgum löndum, höfum við undanfarin ár séð bakslag víða í réttindabaráttunni.

Á meðan hægt er að nefna ótal dæmi um beina aðför að hinsegin fólki og réttindum þeirra langar mig að staldra við þá mismunun sem læðist kannski meira með veggjum en grefur engu að síður undan réttindum og tilverurétti hinsegin einstaklinga. Það er aðförin að kynhlutlausu tungutaki. Hérlendis hefur umræðan til að mynda snúist um það hvort hægt sé að breyta þeirri venju að tala um öll kyn í karlkyni; að segja fólk og öll í staðinn fyrir allir og menn þegar rætt er um hópa af öllum kynjum. Að segja þau í stað þeir eða nefna að fólk sé af öllum kynjum en ekki báðum kynjum kann að hljóma léttvægt en það skiptir máli. Kynjað málfar útilokar hópa, oft jaðarsetta hópa, og það er okkur öllum í hag að tungumálið þróist í þá átt að það sé rými fyrir okkur öll óháð kyni. (SÞÁ: Heyr, heyr.)

Forseti. Þessi umræða er ekki úr lausu lofti gripin. Við sjáum t.d. alvarlega afturför í löndum í kringum okkur. Nýlega kom t.d. fram tillaga að stefnulýsingu hjá breska heilbrigðiskerfinu þar sem tekin er sú afstaða að kyn sé líffræðileg staðreynd og einnig eru áform um að snúa tungutakinu úr því tala kynhlutlaust við fólk innan heilbrigðiskerfisins aftur til fyrra horfs. Í Þýskalandi hefur Bæjaraland samþykkt lög sem banna hreinlega kynhlutlaust tungumál í skólum og hjá opinberum stofnunum.

Jafnvel þó að ákveðnum réttindum sé náð er ekki öruggt að þau haldist um ókomna tíð sé þeirra ekki gætt. Tungumál mótar hugsanir okkar og lifaðan veruleika og það er mikilvægt að við stöndum vörð um réttindi og orðræðu í málefnum hinsegin fólks í tali og í verki. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)