154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

Störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það er líklega óhætt að segja að þau okkar sem erum komin til vits og ára þekki biðlistavandann sem hefur verið skapaður í heilbrigðiskerfinu. Þegar kemur að heilsugæslunni, fyrsta viðkomustað heilbrigðiskerfisins samkvæmt heilbrigðisstefnu stjórnvalda, er staðan sú að stór hluti Íslendinga er án heimilislæknis. Víða er ekki hægt að fá bókaðan tíma en starfsfólk heilsugæslu vinnur kraftaverk á hverjum degi við að bjarga fólki úr ógöngum vegna stöðunnar. Og hver er þá staðan? Mönnun heimilislækna er í sögulegu lágmarki. Til að uppfylla staðla Félags íslenskra heimilislækna þyrfti að þrefalda fjölda heimilislækna í fullu starfi. Það hefur vissulega og sem betur fer verið stöðug ásókn í sérnám í heimilislækningum síðustu ár en það eru þó nokkur ár í það að við náum þeirri stöðu að heimilislæknum fari að fjölga aftur.

Þessi staða er ekki óvænt, hún hefur legið fyrir lengi, en þegar engin alvörutilraun er gerð til stefnumótunar sem byggist á framtíðarsýn þá verður þetta staðan aftur og aftur. Sú stefna sem stjórnvöld hafa unnið eftir, að bæta sífellt einhverjum viðbótarverkefnum á heilsugæsluna, sem á móti kemur niður á getu hennar til að sinna kjarnastarfsemi heilsugæslu, er einfaldlega dauðadómur yfir þeirri sömu kjarnastarfsemi. Það þarf að snúa af þessari braut. Það þarf að leggja áherslu á að styrkja kjarnastarfsemi heilsugæslunnar, tryggja faglegt og spennandi starfsumhverfi og stuðla að tækniþróun sem styður við þessi markmið og það þarf að nýta fjármögnunarlíkanið til að búa til réttu hvatana. Þetta er auðvitað ekki gert nema fyrir liggi sýn og stefna.

Herra forseti. Stjórnvöld verða einfaldlega að gera betur vegna þess að heimilislæknar eiga ekki og mega ekki verða lúxusvara.