154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

Störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Georg Eiður Arnarson (Flf):

Virðulegur forseti. Í gær ræddum við málefni Grindvíkinga og eftir umræðurnar varð mér hugsað til þess þegar gosið hófst í Heimaey fyrir rétt rúmum 50 árum. Það var afar sérstök upplifun að vera vakinn um miðja nótt og þurfa að yfirgefa heimili sitt og sigla brott og horfa sem barn á fullorðið fólk gráta í skugga eldglæringanna. Þetta setti að sjálfsögðu mikið strik í líf mitt og annarra Eyjamanna og hafði áhrif á líf okkar í mörg ár á eftir og hefur enn. Sjálfur eyddi ég svo unglingsárunum í að vinna við að moka upp vikri úr bænum. Nú lifa Grindvíkingar í óvissu um framtíð sína, sumir þeirra fluttu þangað frá Vestmannaeyjum á sínum tíma og eru því að flýja náttúruna í annað sinn. Það er því sorglegt hve langan tíma það hefur tekið að tryggja hagsmuni Grindvíkinga og jafnframt að enn í dag lifi fjöldi Grindvíkinga í algerri fjárhagslegri óvissu um framtíð sína. Félagið Þórkatla hefur samþykkt fjölda umsókna en hefur ekki greitt fyrir fasteignirnar. Því eru Grindvíkingar sem hafa gert tilboð í fasteignir að lenda í því að missa af þeim vegna þessara tafa. Nú er útlit fyrir að loksins sé að komast hreyfing á hlutina en þó er enn óvíst hvenær flestir muni fá eign sína greidda og jafnframt margir sem lifa í fullkominni óvissu. Ég biðla því til þingheims að ná strax samstöðu um málefni Grindvíkinga og halda áfram að hlusta á raddir þeirra.