154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

Störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér til að fagna því að nú er verið að fjölga ferðum sem fást endurgreiddar frá Sjúkratryggingum vegna nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu sem er sótt utan heimabyggðar. Um síðustu áramót fjölgaði endurgreiddum ferðum úr tveimur í þrjár og nú verður ferðunum fjölgað í fjórar á ári. Í fjáraukalögum sem eru á dagskrá þingsins í dag er tillaga um sérstaka fjárveitingu til að mæta kostnaðinum við fjórðu ferðina og er það einn liður í aðgerðum stjórnvalda til að greiða fyrir kjarasamningum. Þessi aðgerð er mjög mikilvæg til að auka og jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu, með því að draga úr kostnaði við að sækja heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð.

Það hefur verið stefna Framsóknar að lækka greiðsluþátttöku sjúkratryggðra. Breytingar á reglugerð um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda innan lands falla einmitt að þeim markmiðum ásamt því að falla að heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Þetta er meðal margra jákvæðra frétta úr heilbrigðiskerfinu á síðustu mánuðum. Þessa aðgerð er einmitt mikilvægt að horfa á í samhengi við samninga við sérfræðilækna sem gengið var frá síðastliðið sumar eftir samningsleysi frá 2019. Meðan ekki voru til staðar samningar við sérfræðilækna var ekki hægt að segja að allir hefðu sama aðgang að heilbrigðisþjónustunni en með þessum samningum lækkaði greiðsluþátttaka einstaklinga en þjónusta sérfræðilækna hafði hækkað jafnt og þétt í samningsleysinu. Þá styður samningurinn við sérfræðilækna við framþróun í þjónustu með sérstakri áherslu á nýsköpun, stafræna þróun og fjarheilbrigðisþjónustu. Þannig er ætlunin að styrkja umgjörð allrar starfsemi læknanna ásamt því að tryggja aðgengi að henni, m.a. með sérstöku ákvæði um að leita leiða til að auka viðveru sérfræðilækna á landsbyggðinni.