154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

Störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á Íslandi er til eitthvað sem heitir leikskólavandi, séríslenskt orð. Við eigum ekkert slíkt orð um önnur skólastig þessa lands. Hvenær ákváðum við bara að það væri ásættanlegt í okkar samfélagi að foreldrar smábarna þyrftu að ganga í gegnum eld og brennistein ár hvert til að koma börnum sínum inn á leikskóla? Þetta er vandamál úti um allt land, ekki bundið við höfuðborgina eina. Það er afleiðing af því að það er enginn raunverulegur fókus á þessum verkefnum í íslenskum stjórnmálum. Það verður að breytast. Við höfum tekið þessu sem allt of sjálfgefnum hlut í gegnum tíðina, rétt eins og mörgum öðrum verkum sem komin eru til vegna dugnaðs íslenskra kvenna. Áður en það grípur um sig einhver þórðargleði hérna þá vil ég segja að lausnir einstaklingshyggjunnar og hægrisins hafa ekki skilað okkur neinu nema tillögum að okri á þessum sjálfsögðu réttindum sem eigi að standa öllum börnum og öllum foreldrum til boða. Það er líka sláandi að lesa um aðstæður fólks í Reykjavík sem getur ekki gengið að því vísu að fá pláss fyrir börnin á leikskóla nálægt eigin heimili. Margir foreldrar hafa hreinlega sett sig í samband við mig, fólk sem er sett í þá stöðu að þurfa að keyra hverfanna, jafnvel sveitarfélaganna, á milli til þess að geta stundað vinnu sína eða nám. Ég hef líka heyrt frá fólki sem er með tvö, þrjú börn á mismunandi leikskólum. Ég ítreka að hér í þinginu bíður frumvarp meðferðar, frumvarp okkar Samfylkingarfólks, sem myndi taka af allan vafa um lögmæti systkinaforgangs og tengingu leikskóla við búsetu fólks. Það hljóta allir að sjá að núverandi ástand er fullkomlega óboðlegt.

Forseti. Stóra verkefnið okkar núna á næstu misserum er að gera íslensku leikskólana aftur að því flaggskipi jafnréttis sem þeir eitt sinn voru. Sveitarfélög og ríki verða að taka höndum saman um raunhæfar og álitlegar lausnir með jafnrétti að leiðarljósi. Það er kominn tími til að skoða lögbundinn rétt til leikskólavistar að norrænni fyrirmynd og tryggja forsvaranleg kjör leikskólakennara.

Forseti. Þetta er grjóthart mál sem á alla athygli skilið.