154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

Störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. „[É]g er búinn að fylgjast með þessu í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

„Þetta sagði Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, við rannsóknarnefnd á vegum Alþingis í eftirmálum hrunsins. Margur hefur eflaust létt á hjarta sínu við nefndina en þegar hundslappadrífu mörg þúsund blaðsíðna linnir standa þessi orð líkt og steinn upp úr fönn. Það er nefnilega alveg rétt hjá Styrmi að þetta er ógeðslegt. Sjálfstæðisflokkurinn var og er undarlega samansúrrað bandalag þar sem þræðir heimóttarskapar, hagsmuna, frændhygli og vænisýki renna svo fagurlega saman í naflastreng skrímslis sem lítur samt út eins og sauðkind í teinóttum jakkafötum.“

Þetta skrifar Páll Ásgeir Ásgeirsson 31. mars 2015 í það sem hét þá Stundin en nú Heimildin. Hvers vegna er ég að lesa þetta upp núna? Hvers vegna er ég að vísa í þetta núna? Jú, það er vegna þess að það er með hreinum ólíkindum hvernig stjórnvöld í rauninni voga sér að koma fram við íslenskan almenning og þá sem höllustum fæti standa, talandi um að hér sé jöfnuður hvað mestur í heiminum, vitandi það að það er vaxandi fátækt. Það er ráðist hér á fatlað fólk. Það er ráðist hér á öryrkja. Það er alltaf ráðist á þar sem garðurinn er lægstur. Í hvaða tilgangi er það mögulega? Hvers konar samfélagi búum við í? Hvers konar stjórnvöld eru það sem ráðast alltaf á þá sem höllustum fæti standa í samfélaginu? Ég tek undir hvert einasta orð sem Styrmir Gunnarsson sagði: Þetta er ógeðslegt þjóðfélag.