154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

Störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegur forseti. Auknar heimildir, rafbyssur, hríðskotarifflar. Þetta er það sem við heyrum þegar þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins tala um þegar þeir fjalla um löggæslu. Það er hins vegar athyglisvert að ræða við lögregluna sjálfa og hlusta á hvað hún óskar eftir; bætta vinnuaðstöðu og launakjör. Sannleikurinn er sá að það er erfitt að fá gott starfsfólk í lögregluna og halda því til lengdar. Ekki hjálpar þegar heilu lögreglustöðvarnar eru skemmdar af myglu. Fleiri lögreglumenn í almenna löggæslu er eitt af því sem þau nefna. Undanfarin ár hefur byggst upp mikil sérhæfing. Kynferðisbrotadeild efld, deild til rannsókna á skipulagðri brotastarfsemi efld. Það er að sjálfsögðu gott þegar fjármagn er sett í að bæta þjónustu á ákveðnum sviðum en það hefur komið stórlega niður á almennri löggæslu. Í dag eru helmingi færri á almennri vakt en fyrir tíu árum síðan. Forvarnir og samfélagsleg löggæsla hafi verið sett á hakann. Í dag er tveir og hálfur starfsmaður í samfélagslegri löggæslu á höfuðborgarsvæðinu. Það er einn lögreglumaður á hverja 100.000 íbúa. Í Finnlandi er það hlutfall einn á hverja 5.000 íbúa. Alls staðar í heiminum hefur verið sýnt fram á mikilvægi þess að efla samfélagslega löggæslu á sama tíma og við höfum dregið hana saman. Kannski er það ástæðan fyrir auknu ofbeldi og hörku, sér í lagi meðal unglinga.

Í fjármálaáætlun þeirri sem liggur fyrir þinginu er gert ráð fyrir 1% niðurskurði á fjármagni til löggæslu frá 2026, niðurskurði á krítískum innviðum sem tryggja öryggi íbúa okkar. Þarna fer hljóð og mynd alls ekki saman við eldmóð Sjálfstæðismanna um aukið öryggi í bættum heimi. Tryggjum aukið fjármagn til forvarna, (Forseti hringir.) samfélagslegrar löggæslu og annarra verkefna sem auka traust á lögreglu en draga ekki úr því eins og tillögur Sjálfstæðismanna og fjármálaáætlun stefna að.