154. löggjafarþing — 107. fundur,  6. maí 2024.

öryggi í knattspyrnuhúsum og fjölnota íþróttahúsum.

794. mál
[18:26]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni aftur fyrir og segi að umræddar reglur fjalla um umgjörðina en ekki byggingu mannvirkisins sjálfs. Þær þarf sannarlega samhliða þessu að skoða. Eins og þingmaðurinn nefndi hefur verið umræða bara núna síðustu daga um auglýsingar á gólfum og það er að hafa áhrif. Við erum líka í umfangsmiklum aðgerðum í samstarfi við íþróttahreyfinguna og sveitarfélögin sem lýtur að aðbúnaði afreksíþróttafólks, sem lýtur að íþróttum barna og ungmenna í kringum landið með nýju svæðaskipulagi. Ég held að þetta sé sannarlega eitt af því sem þurfi síðan að taka í framhaldinu. Þetta krefst dálítillar yfirlegu, samvinnu og samstarfs á milli aðila og að loka glufunum. Ég held að þær reglur sem vitnað er til hér, að það þurfi engu að síður líka að skoða íþróttalögin, það þurfi að skoða byggingarreglugerðina og samspilið þarna á milli samhliða vitundarvakningu. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta upp hér á Alþingi vegna þess að við viljum að það sem sameinar okkur svo mikið, hvort sem það er afreksíþróttafólkið okkar eða börnin sem fara á fótboltamót og handboltamót, fimleikamót o.s.frv., að þau séu örugg í þessu starfi. Þá þurfum við reglulega að endurskoða okkar lög og reglur og það á svo sannarlega við í þessu eins og öðru.