154. löggjafarþing — 107. fundur,  6. maí 2024.

öryggi í knattspyrnuhúsum og fjölnota íþróttahúsum.

794. mál
[18:18]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn um hvernig öryggi notenda í íþróttamannvirkjum er tryggt í þeim lagaramma sem við búum við. Það verður nú að segjast að það er kannski ekkert eitthvað sérstaklega mikið í þeim lagaramma sem heyrir undir þann ráðherra sem hér stendur. Samkvæmt 7. gr. íþróttalaga er bygging íþróttamannvirkja í þágu skóla og til almenningsnota í verkahring sveitarfélaganna og sagt, „nema öðruvísi sé fyrir mælt í lögum“. Það er hvergi öðruvísi fyrir um mælt í lögum þannig að það eru sveitarfélögin almennt sem halda utan um þetta og bera ábyrgð á því með formlegum hætti. Það er sveitarstjórn sem veitir byggingarstyrki í flestum tilvikum til íþróttafélaga og íþróttasamtaka eftir því sem ákvarðað er í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Sums staðar er það íþróttafélag sem rekur mannvirkin. Sums staðar er það íþróttafélag jafnvel sem á mannvirkin. Sums staðar er það sveitarfélagið sem á það með beinum hætti o.s.frv. Í raun eina mannvirkið sem ríkið er með á sinni könnu er þá þjóðarhöll sem við erum að fara af stað með í samstarfi ríkis og sveitarfélaga þannig að við erum hlutaaðili í því, mannvirki sem er ætlað til alþjóðlegrar keppni.

Bygging íþróttamannvirkja og þar með talið knattspyrnuhúsa, eins og þingmaðurinn spyr að hér, og fjölnota íþróttahúsa lúta formlega í dag ákvæðum laga um mannvirki sem er þá byggingarreglugerð, bara hefðbundin byggingarreglugerð um byggingu mannvirkja. Sá málaflokkur, húsnæðis- og mannvirkjamál, heyrir undir innviðaráðuneyti. En ég ætla að leyfa mér að reifa hérna stuttlega það sem viðkemur íþróttamannvirkjum og varðar annars vegar frágang þeirra mannvirkja sem tryggir öryggi og hver beri þá ábyrgð á úttekt á öryggi notenda í þessu sambandi. Það kann að vera að þetta verði aðeins tæknilegt sem ég ætla að fara yfir.

Í byggingarreglugerð eru mannvirki flokkuð í svokallaða umgangsflokka í þeim tilgangi að skýra stjórnsýslu í mannvirkjamálum og gera umsóknarferli skilvirkara. Samkvæmt viðmiðunarreglum sem gefnar eru út um flokkun mannvirkja í umfangsflokka falla m.a. íþróttamannvirki undir svokallaðan umgangsflokk 3, sem teljast mannvirki þar sem gert er ráð fyrir að mikill fjöldi fólks geti safnast saman eða notkun þeirra sé þannig að fólk geti ekki bjargað sér sjálft úr mannvirkinu, samanber 1. kafla reglugerðarinnar. Án þess að fara að fjölyrða um innihald reglugerðarinnar er þar að finna ákvæði um hlutverk og ábyrgð aðila, allt frá eiganda mannvirkis til þeirra aðila sem veita byggingarleyfi, þ.e. leyfisveitanda, og hafa eftirlit með uppbyggingu mannvirkisins og því að mannvirkið uppfylli skilyrði byggingarreglugerðarinnar. Þess ber að geta að leyfisveitandi getur samkvæmt reglugerðinni verið byggingarfulltrúi viðkomandi sveitarfélags eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem gefur út eða á að gefa út byggingarheimild og byggingarleyfi. Samkvæmt reglugerðinni ber eigandi mannvirkis eða byggingarstjóri ábyrgð á því að óska eftir öryggis- og lokaúttekt frá leyfisveitanda sem gefur út vottorð um að slíkar úttektir hafi farið fram.

Með öðrum orðum má segja að eigandi mannvirkis beri formlega ábyrgð á því að mannvirki sé byggt samkvæmt þeim kröfum sem settar eru fram í byggingarreglugerð, um að öryggis- og hollustuháttakröfur séu uppfylltar í samræmi við fyrirhugaða starfsemi en hlutverk leyfisveitanda er að votta um að þættir er varða öryggi og hollustuhætti hafi verið teknir út og þeir séu í samræmi við skilyrði laga og reglugerða.

Það má því segja svona í stuttu máli að það er ekkert fjallað í íþróttalögum um þetta nema hvað að þetta er á hendi sveitarfélaganna. Það er ekkert fjallað í íþróttalögum per se um aðbúnað eða kröfur. Það er í byggingarreglugerð og lögum um mannvirki þar sem fjallað er um þessi mál. Það er þar sem þyrfti að setja ákveðnar kröfur inn ef við ætluðum að setja það skýrt inn. Ég held að það sé alveg tilefni til þess að taka það samtal upp við innviðaráðherra, við sveitarfélögin og við íþróttahreyfinguna hvort ástæða sé til þess að skoða hvort við eigum að ná aðeins meiri samhæfingu þarna og fá sýn íþróttafélaganna á það. Við sjáum bara reglulega umræður um aðbúnað sem valdið getur meiðslum. Og þó að það tengist kannski ekki þessari fyrirspurn þá voru nú bara fréttir núna í vikunni af auglýsingum á völlum sem eru að valda meiðslum og samtök íþróttamanna eru byrjuð að kalla eftir upplýsingum um þá sem hafa orðið fyrir meiðslum vegna auglýsinga sem eru á gólfi.

Allt er þetta gríðarlega mikilvægt, fyrir íþróttamenn sérstaklega og börn sem eru að æfa íþróttir, að þessu sé háttað með öryggi í fyrirrúmi. Þá þarf aukið samtal á milli aðila. (Forseti hringir.) Þessi fyrirspurn sannarlega ýtir við því að við förum í slíkt samtal. Ég ítreka aftur að langstærstur hluti (Forseti hringir.) mannvirkjanna er á hendi sveitarfélaganna sem byggja þau, sjá um þau og reka þau.