154. löggjafarþing — 107. fundur,  6. maí 2024.

öryggi í knattspyrnuhúsum og fjölnota íþróttahúsum.

794. mál
[18:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þá er komið að lokafyrirspurninni í þessari fyrirspurnaseríu sem raðaðist svona sérkennilega upp hér en það getur ýmislegt gerst í störfum þingsins. Nú langar mig að ræða við hæstv. mennta- og barnamálaráðherra um öryggismál í knattspyrnu- og fjölnota íþróttahúsum landsins. Í sumum þeirra eru hættulegar slysagildrur. Þar hef ég sérstaklega í huga óvarðar járnstoðir aftan við endalínur vallanna en mögulega er fleira í þessum húsum sem þarfnast skoðunar með tilliti til öryggis notenda. Notendur húsanna, börn sem fullorðnir, sem lenda á þessum stoðum á fullri ferð eru einfaldlega í stórhættu. Í sumum knattspyrnuhúsunum hafa stoðirnar verið varðar en því miður hefur stundum þurft alvarlegt slys til þess að í slíkar framkvæmdir væri farið. Áhættan er háð fjarlægð endalínu frá vegg en líka breytileg eftir því hvort gervigras nær að veggnum eða hvort það er tartan, malbik eða eitthvert annað efni á milli. Mest er hættan þar sem malbik tekur við af gervigrasinu rétt við endalínuna og á malbikinu hefur knattspyrnufólk á fótboltaskóm litla stjórn á aðstæðum. Kostnaður við öruggari frágang er óverulegur í samhengi við byggingarkostnað, rekstrarkostnað eða hættuna á alvarlegum slysum.

Ég hef í nokkur ár vakið máls á þessu í tveggja manna tali við fólk sem mér hefur fundist líklegt til að beita sér fyrir úrbótum. Það hefur ekki skilað miklu þó að margir telji úrbóta þörf en mögulega vantar skýrari viðmið fyrir mat á öryggi og fyrirmæli og lausnir til að gripið sé til nauðsynlegra úrbóta. Í fljótu bragði finn ég ekki ákvæði sem benda á þessi atriði sem lið í að tryggja öruggt umhverfi notenda. Það eru þó í gildi alls kyns reglur um öryggi notenda í íþróttamannvirkjum en annaðhvort eru göt í reglunum eða eftirfylgni óljós. Þetta viðfangsefni fellur mögulega á milli í samstarfi ráðuneyta, sveitarfélaga og íþróttahreyfingarinnar.

Hæstv. forseti. Því spyr ég: Hvaða reglur gilda um frágang knattspyrnu- og fjölnota íþróttahúsa til að tryggja sem öruggasta umgjörð notenda húsanna og hver ber ábyrgð á úttekt á öryggi notenda húsanna?