154. löggjafarþing — 107. fundur,  6. maí 2024.

þjónusta við ungmenni sem eru ekki í vinnu, virkni eða námi.

1009. mál
[18:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Til að lágmarka fjölda þeirra sem falla undir NEET-skilgreininguna á hverjum tíma þarf öll vinna með börnum í gegnum skólagönguna að vera markviss, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, en þrátt fyrir það verðum við alltaf að vera viðbúin því að atburðir verði í lífi ungmenna sem setja beinu brautina úr skorðum. Slíkur atburður getur t.d. verið flutningur á milli landa á viðkvæmum aldri. Þess vegna verður þetta verkefni alltaf til staðar, jafnvel þó að leikskólinn vinni vel eða grunnskólinn. En þá skiptir máli að viðbrögð séu samhæfð. Ef nemandi hættir í skóla þarf að vera tryggt að hann eigi aðgang að öðrum úrræðum til að halda áfram að þroska sína hæfileika, byggja upp lífsleikni, þrautseigju og seiglu. Stundum gerist það á vinnumarkaðnum og þá höfum við gjarnan vísað til skóla lífsins í gegnum tíðina. Því miður er leiðin inn á vinnumarkaðinn ekki eins greið núna og hún hefur verið síðustu áratugi, m.a. vegna aukinnar sérhæfingar starfa.

Vinnumálastofnun og sveitarfélögin hafa skilgreindu hlutverki að gegna í þjónustu við þessa einstaklinga og mörg úrræði geta líka hentað þessum einstaklingum vel eins og hæstv. ráðherra kom líka inn á, t.d. lýðskólarnir og fjölsmiðjurnar, verkefni eins og Tækifærið og ýmis starfsendurhæfingarúrræði.

Virðulegi forseti. Það sem í mínum huga þarf að vera tryggt er að ef nemandi skilar sér ekki framhaldsskóla eða dettur út sé aðgangur að öðru viðeigandi úrræði tryggður að lágmarki til 18 ára aldurs. Ég hef velt fyrir mér þeim möguleika að fjármagn fylgi einstaklingum ef þeir hætta námi þannig að þeir geti strax leitað í önnur úrræði eða að skólarnir geti vísað þeim þangað. Þess háttar vinnubrögð gætu komið í veg fyrir langtímaatvinnuleysi og aukið færni og sjálfstraust.