154. löggjafarþing — 107. fundur,  6. maí 2024.

raunfærnimat.

733. mál
[17:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og barnamálaráðherra svörin og ég fagna því sem fram kom í hans máli um samstarf bæði ráðuneyta og framhaldsskólanna og framhaldsfræðslunnar. Það er mikilvægt að það sé gott samstarf um raunfærnimatið, námsráðgjöf og námið sem einstaklingar þurfa að eiga aðgang að í kjölfar raunfærnimats. Mér finnst frábært að heyra af samningnum við Fræðslumiðstöðina, um tilraunaverkefni Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Borgarholtsskóla, og finnst mjög spennandi að sjá útkomuna úr því. Það má segja að framhaldsfræðslukerfið hafi innleitt raunfærnimatið eftir að lögin voru sett 2010 og þar er framkvæmdin í höndum fræðsluaðila sem sækja síðan fjármagn til verkefnisins í fræðslusjóð. Á vefnum næstaskref.is er gott yfirlit um möguleika til raunfærnimats og hverjir sinna því. Samkvæmt ársskýrslu fræðslusjóðs árið 2022 greiddi hann raunfærnimat fyrir 507 einstaklinga og 60 einstaklingar stóðu sjálfir straum af kostnaðinum af því að þeir voru utan markhóps framhaldsfræðslulaganna. Þetta skiptir máli. Það eru býsna margir að nýta þessa leið. Þetta er mikilvægt verkfæri fyrir einstaklinga og atvinnulíf. Sumir bæta við sig námi en aðrir styrkja stöðu sína á vinnumarkaði og atvinnulífið nýtur góðs af.

Framhaldsfræðslan hefur skyldum að gegna við að leiðbeina fólki sem hefur lokið raunfærnimati. Það hefur komið fram hér einmitt í svari við fyrirspurn. Þar er náms- og starfsráðgjöf lögboðin þjónusta samkvæmt framhaldsfræðslulögum, en ég held að það séu tækifæri til úrbóta þannig að það sé alveg skýrt hver fer með forystuna í þróun verkefnisins, (Forseti hringir.) jafnvel þó að verkefninu sé sinnt mjög víða, sem ég held að sé líka mjög mikilvægt þannig að það sé greiður aðgangur.