154. löggjafarþing — 107. fundur,  6. maí 2024.

raunfærnimat.

733. mál
[17:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Nú langar mig að ræða raunfærnimat og hlutverk framhaldsskólanna í því sambandi. Mat á raunfærni byggist á þeirri hugmynd að nám fari ekki eingöngu fram innan formlega skólakerfisins heldur við alls konar aðstæður og í alls konar samhengi. Raunfærnimat er skilgreint í lögum um framhaldsfræðslu frá 2010 sem skipulegt ferli þar sem lagt er mat á alhliða þekkingu og færni einstaklings. Matið getur byggst á skólagöngu, starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, framhaldsfræðslu, félagsstörfum og lífsreynslu viðkomandi. Í lögunum kemur líka fram að þeir sem hafa stutta formlega skólagöngu og kjósa að leggja stund á nám sem skipulagt er á grundvelli laga um framhaldsfræðslu eða laga um framhaldsskóla eiga rétt á að einstaklingsbundin raunfærni þeirra sé metin. Haustið 2021 hófst þróunarverkefni um raunfærnimat á háskólastigi, þá í grunnnámi í leikskólakennarafræði, og mér skilst að frekari áform um þróun raunfærnimats séu uppi á háskólastiginu.

Framkvæmd raunfærnimats fer fram á mörgum stöðum hjá viðurkenndum fræðsluaðilum, svo sem símenntunarmiðstöðvum og Iðunni, og samkvæmt reglugerð frá 2011. Aldursviðmiðin eru almennt 23 ár en í þróunarverkefni Háskóla Íslands eru það 25 ár. Mín upplifun er að viðhorf til þessarar aðferðafræði sé almennt mjög jákvætt. Helst hefur verið gagnrýnt að of mikið sé byggt á staðfestingu á starfsreynslu frekar en að fólk hafi tækifæri til að sýna fram á raunverulega færni.

Í tengslum við umfjöllun um frumvarp til laga um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu fyrr í vetur komu fram nokkrar áhyggjur af stöðu verkefna sem Menntamálastofnun hefur sinnt og tengjast framhaldsfræðslunni. Þótt þær breytingar hafi ekki bein áhrif á framkvæmd raunfærnimatsins komu engu að síður fram áhyggjur af stöðu þess til framtíðar og að ekki væri skýrt af lögum hver bæri ábyrgð á forystu við þróun þess. Eins komu fram ábendingar um að ekki lægi alltaf ljóst fyrir hvaða menntastofnanir tækju við nemendum að raunfærnimati loknu.

Þessi umfjöllun ásamt umræðu um mat á menntun innflytjenda varð kveikjan að fyrirspurn minni hér í dag og hef ég lagt fram sambærilega fyrirspurn til fleiri ráðherra. Hér vil ég spyrja um hlutverk mennta- og barnamálaráðuneytisins og stofnana þess er varðar raunfærnimat, skyldur varðandi matið, skyldur til að leiðbeina fólki sem lokið hefur raunfærnimati og hvort tryggt sé að framhaldsskólar geti tekið við nemendum sem lokið hafa raunfærnimati.