154. löggjafarþing — 107. fundur,  6. maí 2024.

mat á menntun innflytjenda.

730. mál
[17:49]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þingmanninum aftur fyrir þetta og segja að ég er algjörlega sammála þessu. Ég held að við sem samfélag þurfum að fara miklu meira á dýptina ofan í allt sem við erum að gera. Hérna getum við nálgast einn anga af menntakerfinu út frá því að það eru að verða um 20% þjóðarinnar sem tilheyra þessum hóp. Ég er sannfærður um, hvort sem það lýtur að þessu viðfangsefni sem verið er að ræða hér eða raunfærnimatinu sem við ræðum á eftir, að ef við værum að skrifa kerfið í dag frá grunni myndum við gera það eilítið öðruvísi miðað við að fimmtungur þjóðarinnar er hingað fluttur með annan tungumála- og menningarbakgrunn. Þessar ábendingar frá hv. þingmanni tökum við með okkur inn í þá vinnu og verður gaman að fylgja því eftir.