154. löggjafarþing — 107. fundur,  6. maí 2024.

mat á menntun innflytjenda.

730. mál
[17:41]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta upp vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt í samfélagi og heimi eins og við búum í sem er að opnast og við erum að sjá aukinn fjölda innflytjenda dag frá degi og viku frá viku flytjast til landsins og taka þátt í því að byggja upp íslenskt samfélag. Þá er gríðarlega mikilvægt að þetta sé einn af þeim þáttum sem við skoðum sérstaklega og skiptir máli að skoða það út frá þessari þjónustuvænu nálgun sem þingmaðurinn lagði áherslu á.

Það var spurt sérstaklega að því hvaða stofnanir á málefnasviði ráðuneytisins kæmu að mati á menntun innflytjenda, þ.e. ráðuneyti mennta- og barnamála. Það er þannig að mat á menntun innflytjenda fer fram hjá ýmsum stofnunum og fer m.a. eftir því um hvernig nám er að ræða, hvort það er háskólanám, nám á heilbrigðissviði eða nám t.d. í löggiltum iðngreinum. Í mennta- og barnamálaráðuneytinu eða undirstofnunum þess koma framhaldsskólar að mati á menntun innflytjenda þegar um er að ræða nám á framhaldsskólastigi.

Með gildistöku nýrra laga um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu sem tók formlega til starfa þann 1. apríl sl. færðist samhliða umsýsla og útgáfa leyfisbréfa kennara til mennta- og barnamálaráðuneytisins frá fráfarandi Menntamálastofnun og hafði verið í höndum Menntamálastofnunar fram að þeim degi. Og hverjar eru skyldur framhaldsskólanna við mat á námi innflytjenda? Það kemur fram í lögum um framhaldsskóla að almennt er fjallað um mat á námi í aðalnámskrá framhaldsskólans. Það er í kafla 15.1 í aðalnámskrá fjallað sérstaklega um þetta. Það er ekkert fjallað sérstaklega um mat á námi erlendis frá en Ísland veitir einstaklingum, háskólum, vinnuveitendum, fagfélögum, stofnunum og öðrum hagaðilum upplýsingar um prófgráður og matsferli þegar um er að ræða slíkt og sinnir jafnframt akademísku mati á erlendu námi og eins námi sem veitir starfsréttindi í iðngrein fyrir þá einstaklinga sem hafa notað námið til lögverndaðs starfsheitis. Þetta er þá nám sem er í flestum tilvikum á framhaldsskólastigi.

Það er líka kveðið á um móttöku nemenda sem eru með annað móðurmál en íslensku í lögum um framhaldsskóla og í einni grein laganna hefur verið sett reglugerð um rétt nemenda í framhaldsskólum til kennslu í íslensku. Samkvæmt reglugerðinni er að finna heimild til handa framhaldsskólunum til að meta móðurmál nemenda til eininga í frjálsu vali eða til eininga í stað annars erlends tungumál þannig að það er mögulegt að nýta það með sama hætti. Það er fjallað um þessi atriði sérstaklega, um nemendur með annað móðurmál en íslensku, í aðalnámskrá framhaldsskólanna.

Síðan spyr þingmaðurinn: Hverjar eru skyldur framhaldsskóla til að leiðbeina fólki með prófgráður frá erlendum skólum um leiðir til að bæta við sig námi til að öðlast starfsréttindi hér á landi? Það eru engar sérskyldur varðandi þetta umfram leiðbeiningarskyldu stjórnvalda samkvæmt stjórnsýslulögum og allir framhaldsskólar verða að starfa samkvæmt stjórnsýslulögum.

Að lokum spurði þingmaðurinn: Hverjar eru skyldur framhaldsskóla til að bjóða upp á námskeið eða námsleiðir sem fólk með menntun frá erlendum skólum kann að vanta til að öðlast starfsréttindi hér á landi? Framhaldsskólarnir hafa í raun engar formlegar skyldur í þessu efni. Framhaldsskólanum ber hins vegar að tryggja fjölbreytt námsframboð og greiðar leiðir áfram í námi. Þetta er mjög almennt orðalag en ég held að það sé alveg ástæða til, og bara þakka þingmanninum fyrir þetta, að framhaldsskólakerfið líkt og aðrir fari að taka dálítið stærri skref í því að nálgast þennan hóp og nálgast hann eins og við myndum telja að væri mögulegt að nálgast okkur ef við myndum flytja með okkar námsgráður, sem eru fjölbreyttar, til framandi lands og ætluðum að taka þar þátt í atvinnulífi og samfélagi.

Þessi yfirferð hérna gefur bara ágætt tilefni til að ætla að við þurfum aðeins að bæta okkur í þessu efni og það hygg ég að hafi verið ástæða þingmannsins fyrir að taka þetta hér upp og ég þakka fyrir það. Við munum skoða með hvaða hætti við getum komið því inn í næsta áfanga aðgerðaáætlunar um menntastefnu þar sem við erum að halda áfram að byggja ofan á þann grunn sem við erum að búa til núna í málefnum innflytjenda og fólks með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn, sem sannarlega hefur flutt hingað til landsins og er að auðga þetta samfélag á hverjum einasta degi.