154. löggjafarþing — 107. fundur,  6. maí 2024.

mat á menntun innflytjenda.

730. mál
[17:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti Hér langar mig að ræða við hæstv. mennta- og barnamálaráðherra um hlutverk stofnana á hans málefnasviði við mat á menntun innflytjenda.

Í vetur hef ég lagt fram sambærilega fyrirspurn til fjögurra ráðherra varðandi mat á námi frá útlöndum í þeim tilgangi að kanna hvernig ólíkir aðilar vinna saman að þessu verkefni og hvernig þeir rækja mismunandi hlutverk við mat á menntun. Í byrjun febrúar opnaði þjónustugátt fyrir mat á námi og starfsréttindum á island.is. Vinna við þjónustugáttina hefur verið leidd af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti í samstarfi við Stafrænt Ísland og ENIC/NARIC-skrifstofu Háskóla Íslands og fleiri lykilaðila. Tilgangurinn með matinu getur verið margþættur, svo sem vegna innskráningar í skóla, vegna viðurkenningar á námi, vegna launaröðunar, veitingar starfsréttinda sem skilyrðis fyrir því að starfa í tiltekinni fagstétt o.fl. Með þjónustugáttinni er verið að tengja umsækjendur í gegnum miðlæga síðu við alla þá sem síðar koma að mati og viðurkenningu á námi og starfsréttindum hér á landi. Þannig batnar aðgengi fólks sem vill fá menntun frá útlöndum metna, bæði innflytjenda og innfæddra.

Hér er um að ræða mjög mikilvægt skref til einföldunar. Loksins er hægt að sækja um og sjá á einum stað allar upplýsingar um kröfur sem gerðar eru til umsókna um viðurkenningu á menntun eða færni. Gáttin er mikilvæg, virðulegi forseti, en hún er bara eitt skref til bætts verklags og aukinnar skilvirkni því að eðli málsins samkvæmt þarf fjöldi fólks að koma að mati á ólíku námi og starfsréttindum. Mikilvægt er að fólk með sérþekkingu komi að matinu og að hvergi sé slegið af kröfum til að sinna störfum í samfélaginu, hvort sem það er við matargerð, húsbyggingar eða í heilbrigðiskerfinu. Með þjónustugáttinni er verið að tengja umsækjendur við fólkið sem sinnir matinu.

Mínar vangaveltur snúa að því fólki sem hefur það hlutverk að vinna úr umsóknum sem koma í gegnum gáttina. Það þarf að vita hvert þeirra hlutverk er, verkferlar þurfa að vera skýrir og það þarf að vera tími til að sinna verkefninu. Ég spyr því: Hvaða stofnanir á málefnasviði ráðuneytisins koma að mati á menntun innflytjenda? Hverjar eru skyldur framhaldsskóla við mat á námi innflytjenda, við að leiðbeina fólki varðandi frekara nám og til að bjóða upp á námskeið eða námsleiðir sem fólk með menntun frá erlendum skólum kann að vanta?