154. löggjafarþing — 107. fundur,  6. maí 2024.

heimavist við Fjölbrautaskóla Suðurlands.

715. mál
[17:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Herra forseti. Hér spyr ég um Fjölbrautaskóla Suðurlands og skal hér með uppljóstrast að ég ber miklar taugar til þess skóla. Fyrir 30 árum, um þessar mundir, settist ég á skólabekk þar og lauk fjórum árum síðar stúdentsprófi þaðan. En mig langar samt að trúa því að mér væri hlýtt til þessa skóla hvort eð er vegna þess að í honum kemur saman margt af því besta við framhaldsskólakerfið okkar. Þetta er skóli sem er settur á laggirnar fyrir um 40 árum í samvinnu ríkis og sveitarfélaga um allt Suðurland, gríðarstórt landsvæði, í þeirri viðleitni að auðvelda ungu fólki að mennta sig í heimabyggð. Þetta tókst. Fólki varð auðveldara að halda sig heima fyrir og í dag er þetta öflugur skóli með næstum því 1.000 nemendur í dagskóla, sinnir iðnnámi af krafti, býður upp á listnám og hestabrautir fyrir utan allt bóknámið sem er þarna í boði líka. Hann hefur alltaf státað af mjög fjölbreyttum nemendahópi, m.a. vegna þess að þetta er skóli sem er skilgreindur landfræðilega, hann tekur við öllum nemendum á Suðurlandsundirlendinu hvernig svo sem þau standa. Þetta vil ég meina að herði beinin í skólum. Það er gott fyrir skóla að lenda ekki í, eins og sumir bóknámsskólarnir í Reykjavík, að velja úr ákveðna tegund af nemendahópum heldur þurfi að takast á við alla flóruna. Þannig byggjum við upp öflugt, fjölbreytt og betra skólasamfélag. Þegar ég byrjaði var t.d. nýhætt að kenna nemendum af Litla-Hrauni í skólastofum á Selfossi, það var búið að byggja lítinn kofa niður á Hrauni fyrir þennan nemendahóp en þetta sýnir breiddina sem til staðar er.

Eðli máls samkvæmt, vegna þess að samgöngur eru ekki alltaf upp á marga fiska, almenningssamgöngur sérstaklega, og það er um langan veg að fara á þessu svæði hefur heimavist alltaf verið mikilvægur þáttur í skólastarfinu. Lengst af var lítið mál að koma henni fyrir í húsnæði gistihúsa eða hótela á svæðinu meðan ferðaþjónustan var bara rétt yfir hásumarið. En svo fór samkeppnin um húsnæðið að harðna og upp úr aldamótum þá hætti heimavist að vera í boði. Það var síðan eftir dálitla eftirgangsmuni árið 2020 sem það náðist að koma henni aftur á en svo raknaði upp úr þeim samningum núna upp úr áramótum. (Forseti hringir.) Það náðist að framlengja um ár, ekki varanlega, ekki til langtíma og væntanlega verður varanleg lausn ekki fundin í samnýtingu á gistiheimilum eins og nú er. (Forseti hringir.) Þess vegna langar mig að spyrja ráðherra: Hvernig hyggst hann tryggja framtíð heimavistar í Fjölbrautaskóla Suðurlands?