154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ.

1095. mál
[17:13]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar hér í lok þessarar umræðu að þakka fyrir ræður og vangaveltur hv. þingmanna sem hafa tekið þátt í umræðunni. Það eru ýmiss konar ábendingar sem hafa komið fram í athugasemdum og ræðum hv. þingmanna sem ég held að sé afar mikilvægt að nefndin taki til skoðunar. Við erum sannarlega á mjög óvenjulegum tímum og erum að grípa til ráðstafana sem við höfum aldrei séð áður í lagasmíð sem gerir miklar kröfur til þess að þingið sýni úr hverju það er gert þegar það þarf að takast á við flókin mál og hefur oft gert það þegar á móti blæs.

Mig langar til að nefna hér nokkur atriði sem hafa komið fram í umræðunni. Ég vil kannski fyrst nefna mikilvæga punkta sem komu fram hjá hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni sem er í þeirri einstöku stöðu að vera bæði alþingismaður og íbúi Grindavíkur og hluti af samfélagi Grindavíkur og vera í þeirri stöðu að gefa okkur innsýn í dagleg áhyggjuefni þeirra sem hafa þurft að horfast í augu við þessa fordæmalausu tíma og reyna þessar krefjandi aðstæður á eigin skinni.

Hv. þm. Eyjólfur Ármannsson nefndi sérstaklega hér og ítrekaði áhyggjur sínar af samsetningu nefndarinnar og aðkomu sveitarfélagsins sjálfs og sveitarstjórnarinnar í nefndinni. Þá vil ég geta þess hér bara strax við 1. umræðu málsins að sveitarstjórnin lagði á það áherslu að eiga ekki sæti í nefndinni, einmitt vegna þess hversu mikilvægt það væri að það væri algerlega skýrt að þetta væri sjálfstæð eining, en um leið þá væri sveitarstjórnin mjög innan seilingar í ábendingum, ráðgjöf og stuðningi við framkvæmdanefnd. Kemur þá dálítið inn á það sem hv. þm. Guðbrandur Einarsson nefndi um það hver geti haft heildaryfirsýn, eru það þrír eða fimm eða tíu? Ég held að heildaryfirsýnina yfir stöðu Grindavíkurbæjar á þessum tímum sé bara að finna í samtölum við mjög margt fólk á öllum tímum. Ég held að það verði aldrei þannig að heildaryfirsýn náist innan fjögurra veggja á litlum fundi með fáum einstaklingum. Fyrir það fyrsta er heildaryfirsýnin og aðstæðurnar svo breytilegar frá degi til dags og svo held ég að það þekki það öll sem hafa verið búsett í Grindavík og eru hluti af samfélaginu í Grindavík að afstaða heimila, fjölskyldna, einstaklinga til þess hvað beri að gera, hver séu næstu skref, hvernig framtíðin líti út, sé líka breytileg. Þannig að niðurstaðan um heildaryfirsýnina verður ekki fengin á hverjum degi og þar með sé hún komin heldur kallar þetta á viðvarandi og opið samtal.

Hv. þm. Eyjólfur Ármannsson fylgdi líka eftir andsvari hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar um persónuverndarlög og persónuvernd eða áhyggjur af þeim þætti vegna upplýsinga sem fara á milli stjórnvalda í þessum efnum. Á meðan umræðunni stóð var persónuverndarfulltrúa Stjórnarráðsins sent erindi og viðkomandi spurður um þetta sérstaklega, hvort það sé ástæða til að hnykkja betur á þessum atriðum eða mögulega hreinlega vísa beint í persónuverndarlög. En það er eitthvað sem okkur tekst vonandi að flýta aðeins fyrir, þeirri vinnu nefndarinnar a.m.k., þannig að þau gögn liggi fyrir þegar málið ratar til hv. þingnefndar.

Hv. þm. Bergþór Ólason talaði um atvinnulífið og þetta órofa samtal og samþættingu annars vegar samfélagsins og innviða þess og hins vegar atvinnulífsins þar sem hvorugt getur án hins verið. Þetta frumvarp sem hér er til umræðu fjallar fyrst og fremst um samfélagið og innviði þess en um leið þá hefur verið að störfum hópur undir forystu forsætisráðuneytisins sem hefur verið í sambandi við fyrirtækin á svæðinu, við atvinnulífið á svæðinu, m.a. um framlengingu og mögulega framlengingu á úrræðum sem þingið hefur samþykkt og skiptir mjög miklu máli að samþætta þau sjónarmið og þau úrræði sem þar hafa verið til umræðu.

Stimpilgjaldið kemur ítrekað hér upp til umfjöllunar og það er auðvitað eitthvað sem þarf að vera partur af umfjölluninni.

Hv. þm. Guðbrandi Einarssyni vil ég bara þakka fyrir sitt innlegg sem stafar ekki bara af hans þekkingu á stöðunni á svæðinu heldur nákvæmlega því að halda til haga mikilvægi þess að stuðningurinn sem samfélagið í heild er að veita samfélaginu í Grindavík er aldrei kominn á endastöð. Þetta er í raun og veru viðvarandi mál. Skrefin þurfa að verða fleiri og þau þurfa að halda áfram að vera til vegna þess að við vitum bæði ekki hver heildaryfirsýnin er, hver staðan er nákvæmlega, hvort sem það eru jarðhræringarnar, samfélagið, innviðirnir, öryggismálin, hvað framtíðin síðan ber í skauti sér. Ég vil ekki síst þakka honum fyrir það að nefna hugtakið væntumþykju vegna þess að þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst þetta um fólk. Þetta snýst um samfélag og þetta snýst um rætur, sjálfsmynd og þetta snýst um það að hlúa að samfélaginu í Grindavík. Eiginlega óháð því hvað framtíðin ber í skauti sér þá eru þar rætur sem eru verðmæti í sjálfu sér, sjálfsmynd og sýn á lífið, forgangsröðun, möguleikar og tækifæri, sögur af fólki sem hv. þingmaður nefndi hér, minningar, sameiginleg framtíðarsýn, sameiginleg ást á landinu, landslaginu, íþróttaliðinu, skólanum sínum, kirkjunni o.s.frv. Þessar rætur verða aldrei teknar af samfélaginu í Grindavík og þess vegna skiptir miklu máli fyrir okkur að átta okkur á því í hverju skrefi að þarna liggja verðmætin fyrst og fremst, þ.e. í samfélaginu sjálfu. Við megum aldrei missa sjónar á því þegar við erum að huga að hvort sem það eru innviðir, áþreifanlegir eða hvort það eru lagnir og leiðslur, skólar eða frístund, að án samfélagsins og inntaksins í því þá gildir það einu.

Áfallið sem Grindvíkingar hafa verið að horfast í augu við er ekki bara áfall fyrir það sveitarfélag og það samfélag heldur auðvitað fyrir byggðina alla á Reykjanesskaganum og fyrir samfélögin sem þau sveitarfélög byggja. Þetta er sameiginlegt svæði og sameiginleg sjálfsmynd að mörgu leyti þannig að við þurfum líka að gæta að því að tala ekki um þessi mál eins og við séum að tala annars vegar um Grindavík og hins vegar stóra samfélagið heldur líka það að gæta að sveitarfélögunum á Suðurnesjum sem hafa mörg hver tekið þátt í því að bregðast við þessum áskorunum og hafa tekist á við það af miklum myndarskap. Það hafa verið krefjandi aðstæður og við höfum ekki leyst úr öllum þeim málum enn þá.

Enn og aftur þakka ég hv. þingmönnum fyrir góða, innihaldsríka og styðjandi umræðu við þetta viðkvæma en mikilvæga mál og lýsi því hér yfir í lok 1. umræðu að mitt ráðuneyti mun leggja sitt af mörkum við hvaðeina sem upp kann að koma í umfjöllun hv. umhverfis- og samgöngunefndar og þær spurningar sem kunna að koma upp við umfjöllun málsins.