154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ.

1095. mál
[16:04]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta og segi bara betra er seint en aldrei og ég fagna því að þetta frumvarp sé komið fram. En ég verð að segja alveg eins og er að miðað við þá Grindvíkinga sem ég hef hitt og hafa rætt við mig og bent mér á ýmislegt sem betur hefði mátt fara og miðað við áhyggjur Grindvíkinga þá vona ég heitt og innilega að það verði séð til þess, og vil spyrja ráðherra hvort það verði ekki séð til þess í þessu máli hérna sem við erum að tala um, að forgangsraða algerlega eldri borgurum, öryrkjum og fötluðu fólki. Ég veit að það er slæm staða. Ég hef heyrt fólk benda á að það sé meira að segja enn þá fólk í hjólhýsum sem er ekki einu sinni með tryggt húsnæði. Þetta eru yfir 100 manns sem eru enn í slæmri stöðu. Verður það ekki sett í forgang að þessi hópur verði verndaður?