154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

stuðningur við nemendur af erlendum uppruna í skólakerfinu.

[15:46]
Horfa

Eva Dögg Davíðsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, takk fyrir þessa yfirferð og ég hlakka til að fylgjast með þessari vinnu eftir því sem henni vindur fram. En nú er það svo að samkvæmt rannsóknum þá líður nemendur með erlendan bakgrunn á Íslandi ekki eins vel í skólanum og öðrum nemendum. Þetta getur átt sér margar útskýringar en mig langar í þessu samhengi að nefna rasisma og fordóma. Á fjölmenningarþingi Reykjavíkurborgar í síðustu viku sagði ungt fólk m.a. frá reynslu sinni af því að vera öðruvísi í íslensku samfélagi. Innan skólakerfisins upplifa mörg rasisma, allt frá öráreiti að beinskeyttri andúð. Á málstofunni kom fram mikilvægi þess að bæta fræðslu, fjölga fyrirmyndum og viðurkenna að það er rasismi Íslandi. Það þarf að auka fræðslu um fjölbreytileikann á öllum stigum skólakerfisins, frá leikskóla og upp úr. Það þarf að auka sýnileika allra Íslendinga svo að börn af erlendum uppruna eigi sér fyrirmyndir í samfélaginu sem endurspegla þau. Og við þurfum svo að vera með augun opin fyrir því að í sumum tilfellum er Ísland einfaldlega ekki sú jafnréttisparadís sem við óskum (Forseti hringir.) og bregðast við og vernda þau sem verða fyrir rasisma. Í ljósi þessa, hvernig telur ráðherra rétt að bregðast við þeirri meinsemd sem rasismi innan skólakerfisins er?