154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

stuðningur við nemendur af erlendum uppruna í skólakerfinu.

[15:42]
Horfa

Eva Dögg Davíðsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Fjöldi barna á grunnskólaaldri með erlendan eða innflytjendabakgrunn hefur tífaldast á síðastliðnum 20 árum og í dag telja þau um 15–20% allra barna sem stunda hér nám. Þessi börn standa verr að vígi í skólakerfinu en önnur og við eigum langt í land með að styðja nemendur af fyrstu og annarri kynslóð innflytjenda nægjanlega í námi. Rannsóknir hér á landi hafa ítrekað leitt í ljós að íslenskufærni þessara barna er ekki á pari við jafnaldra með íslensku sem móðurmál og þessi munur hefur tilhneigingu til að vaxa með hverju ári grunnskólans í stað þess að minnka, sem segir okkur einfaldlega að skólakerfið er ekki að grípa þessi börn. Brottfall þessa hóps er líka hlutfallslega mest í framhaldsskólum og þar er íslenskukunnáttan stór áhrifavaldur. Í þeim íslenskuverum sem starfrækt eru í grunnskólum Reykjavíkurborgar er einungis unnið með nemendur frá fimmta bekk og upp úr en nemendur í fyrsta til fjórða bekk þurfa ekki síður á því að halda að fá sérstaka kennslu í íslensku.

Heildarsýn ríkisstjórnarinnar í útlendingamálum felur í sér jákvætt skref til að bregðast við ákallinu um aukinn stuðning við íslenskufærni á öllum skólastigum en til stendur að setja aukið fjármagn í kennslu í íslensku sem annars máls í grunnskólum, auka stuðning við móttöku og málörvun á leikskólastigi og fjölga íslenskubrautum í framhaldsskólum, ásamt því að auka samfélagsfræðslu á þeim vettvangi. En ekki er síður mikilvægt að huga að innviðum skólakerfisins. Kennarar segjast vera að sligast undan álaginu sem fylgir fjölbreyttum hópi nemenda með ólíkar þarfir. Í umhverfi þar sem sífellt fleiri nemendur hafa fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn er nauðsynlegt að huga að auknum stuðningi við skóla til að skapa uppbyggilegt námsumhverfi fyrir öll. Því spyr ég: Hvernig sér hæstv. mennta- og barnamálaráðherra fyrir sér að halda áfram að styðja við skólakerfið og jafna möguleika allra íbúa landsins?