154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

aðgerðir og fjárframlög vegna fíkniefnavandans.

[15:40]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þakkir til hv. þingmanns fyrir að taka þetta mál upp og láta sig það varða. Við þurfum að gera betur á fjölmörgum sviðum, það er rétt hjá hv. þingmanni, og þetta þarf að skoða með tilliti til gæða þjónustunnar fyrst og fremst fyrir sjúklingana sem þurfa á henni að halda. Við erum auðvitað að gera fjölmargt. Það eru fjölmörg félagasamtök sem vinna gegn fíknisjúkdómum, við megum ekki gleyma því. Það er unnið frábært starf í Hlaðgerðarkoti, í Krýsuvík. Við erum líka með mjög góða samninga við SÁÁ. Við erum að reyna að ná utan um auknar viðhaldsmeðferðir gegn misnotkun ópíóíða. Við erum að byggja upp, í gegnum Sjúkratryggingar og í samvinnu við Landspítalann og SÁÁ, flýtimóttöku fyrir einstaklinga í bráðum vanda. Við erum að vinna að niðurtröppunarverkefnum. Við erum að vinna að því að opna núna bara á næstu vikum neyslurými. Við erum að reyna að dreifa naloxónnefúða gegn misnotkun á ópíóíðum um allt. Það er herðast á því og við erum með alls konar verkefni í gangi og (Forseti hringir.) ég ætla ekki síst að tala um mjög víðtækan stefnumarkandi hóp sem er að vinna að stefnumótun til framtíðar með þingmannahópi í rýni og svo skaðaminnkunarhópi. (Forseti hringir.) Það yrði þá fyrsta skaðaminnkunarstefnan sem yrði til hér og myndi styrkja verulega okkar ákvarðanir inn í framtíðina.