154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

aðgerðir og fjárframlög vegna fíkniefnavandans.

[15:39]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegur forseti. Takk fyrir þetta svar frá hæstv. ráðherra. Heilbrigðiskerfið fær 380 milljarða. Fíkniefnavandinn fær 2 milljarða. Það er innan við 0,5% af heildarkostnaði. Sumarlokunin er vandamál en hún er ekki aðalvandamálið. Aðalvandamálið er sambland af óvissu og fjárskorti. Það þýðir að SÁÁ getur ekki planað fram í tímann hvernig þeir geta haft opið vegna þess að þeir vita ekki hvort þeir fá pening til að halda þessu öllu úti og geta ekki með góðum fyrirvara ráðið það fólk sem þarf til að halda þessari starfsemi opinni. Sá sem hér stendur fór í meðferð 1980, á sumartíma. Þá var ekki lokað. Þá var nóg starfsfólk til. Það var ekkert endilega að það væri faglært en þetta var fólk sem vissi nákvæmlega hvað var um að ræða í þessum geira (Forseti hringir.) og við sem vorum þar höfum yfirleitt staðið okkur bara nokkuð vel.