154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

aðgerðir og fjárframlög vegna fíkniefnavandans.

[15:34]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti. Hér stend ég eins og Kató hinn eldri sem endaði allar sínar ræður á að segja: Ég legg til að Karþagó verði lögð í eyði. Ég er enn og aftur að tala um fíknisjúkdóminn. Ég vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvenær er nóg nóg? Í gær var fjallað um sumarlokunina á Vík á vegum SÁÁ í fréttum RÚV. Þar kom fram að Vík verði lokað vegna manneklu fyrst og fremst. Vandamál sem þessi koma ekki upp úr þurru. SÁÁ hefur kallað eftir auknu fjármagni árum saman en ekki fengið. Þá er mannekla víða í heilbrigðiskerfinu og samkeppnin er alls staðar mikil um heilbrigðisstarfsfólk, hvað þá sérhæft fólk í meðferð gegn fíknisjúkdómum. Hversu lengi getum við beðið á meðan fundað er með Sjúkratryggingum um verkferla og annað? Hversu lengi getum við beðið eftir að starfshópur ráðherra um áfengis- og vímuefnastarfsemi hefur lokið vinnu sinni? Til stóð að starfshópurinn myndi ljúka vinnu sinni í haust en mér skilst að vinnan muni taka lengri tíma en svo. SÁÁ er í óvissu um eigin fjárhag á hverju ári, veit ekki hvort það fær eða hversu mikið það fær og getur því ekki með góðu móti skipulagt starfsemi sína langt fram í tímann, sem það þarf að gera. Sumarlokunin er vandamál en hún er ekki aðalvandamálið. Aðalvandamálið er samblanda af óvissu og fjárskorti.

Eins og allir vita eru mörg hundruð manns á biðlista eftir innlögn á Vog og tugir ungmenna deyja á ári hverju, tugir ungmenna sem eru á biðlistanum á ári hverju eru að deyja ótímabærum dauðdaga. Við eyðum hér tugum milljóna í starfshópa og bíðum eftir skýrslu um hvað gera skuli í stað þess að grípa í neyðarhemilinn. Hingað og ekki lengra. Þetta er risastórt verkefni sem við þurfum öll að vinna að, en ráðherra þarf að grípa til neyðaraðgerða strax. (Forseti hringir.) Þetta er dauðans alvöruvá. Hvenær er nóg nóg? Hvað þarf mörg mannslíf til að fylla mælinn? Hvenær munum við grípa í neyðarhemilinn? (Forseti hringir.) Hvers vegna ekki meiri peninga og ekki núna heldur strax?