154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

greiðslur úr jöfnunarsjóði til Reykjavíkurborgar.

[15:31]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mér er það ljúft og skylt að upplýsa hæstv. ráðherra um að hér vitna ég í viðtal við þáverandi innviðaráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, sem tekið var við hann í Morgunblaðinu og ég man ekki hvaða dag það var en það var í janúar. Ég heyri bara á þessum svörum að það virðist ekki ætla að verða grundvallarbreyting á stefnu ríkisstjórnarinnar um að útiloka Reykjavíkurborg áfram frá því að njóta sannmælis með öðrum sveitarfélögum. Ef það á að taka vel utan um þennan hóp þá þarf að fjármagna það. Ef það á að búa til slíka sérþekkingu innan Reykjavíkurborgar sem á að nýtast öðrum sveitarfélögum í kennslu íslensku sem annars móðurmáls þá þarf að fjármagna það. Ég hvet bara hreinlega Framsóknarflokkinn til að tala saman um forgangsröðun fjármuna og pólitík á fundum sem þau halda sín á milli vegna þess að ef þessi hópur er í sérstökum forgangi og það á að halda vel utan um hann þá hlýtur það að endurspeglast í þeim tíma sem verið er að tala um hann hérna utan þingsala. Það er ekki forsvaranlegt að hér sé því lýst yfir að fólk sé ekki inni í málunum. (Forseti hringir.) Ég spyr bara: Er hæstv. barnamálaráðherra ráðherra allra barna hér á landi eða aðeins þeirra sem búa utan Reykjavíkur? (Forseti hringir.) Veit Framsóknarflokkurinn að það þarf að fjármagna inngildingu barna í fullri sátt og samvinnu við öll sveitarfélög landsins?