154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

greiðslur úr jöfnunarsjóði til Reykjavíkurborgar.

[15:29]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og byrja á því að segja að ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við tökum vel utan um börn með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn. Í ráðuneyti mennta- og barnamála höfum við m.a. verið að vinna með Reykjavíkurborg að ákveðnum þáttum sem þau hafa byggt upp í gegnum m.a. Miðju máls og læsis og hvernig við getum í rauninni nýtt þá góðu reynslu og skalað hana upp á landið í gegnum nýja Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu. Við væntum fregna af því á næstu vikum. Það sama á við um fjármagn sem ætlað er til inngildingar. Þar höfum við lagt áherslu á að það renni til allra sveitarfélaga jafnt. Fjármagn sem rennur í gegnum mennta- og barnamálaráðuneytið til barna á flótta rennur jafnt til allra sveitarfélaga, þar á meðal Reykjavíkur. Hins vegar er það svo með málaferlin sem hv. þingmaður nefnir og frumvarp um þau mál, sem ég veit ekki betur en að liggi fyrir þinginu, eða alla vega af hálfu innviðaráðuneytisins, að það er ekki beint á borði þess ráðherra sem hér stendur. Varðandi samskiptin sem hafa verið á milli innviðaráðuneytis, eftir atvikum fjármálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar þá hefur mennta- og barnamálaráðuneytið ekki beina aðkomu að þeim og því er ég ekki nægilega vel heima í því til að geta tjáð mig ítarlega um það hvernig þau samskipti hafa verið, með hvaða hætti þau eru og hvort það sjái til lands í því samtali á milli Reykjavíkurborgar og innviðaráðuneytisins. En það er gríðarlega mikilvægt og ég er þeirrar skoðunar að greiðslur til allra sveitarfélaga hvað varðar börn með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn eigi að vera jafnar óháð búsetu. Það mál sem sérstaklega er spurt um er á hendi innviðaráðuneytisins og þangað þarf að beina þessu, en ég hef lagt áherslu á það, eins og ég sagði, bæði varðandi inngildingu og greiðslur vegna barna á flótta (Forseti hringir.) á þessu kjörtímabili, að þetta renni jafnt til allra sveitarfélaga.