154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

flutningur venesúelskra ríkisborgara aftur til Venesúela .

[15:20]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. dómsmálaráðherra varðandi flutning ríkisborgara frá Venesúela til síns heimasvæðis með vísan í þann úrskurð sem féll í lok september árið 2023 þar sem kærunefnd útlendingamála breytti fyrri afstöðu sinni varðandi vernd þeirra sem þaðan komu. Hæstv. ráðherra sagði í viðtali að um 1.500 manns frá Venesúela þyrftu að yfirgefa landið hið fyrsta. Þann 15. nóvember 2023 flaug leiguflug til Karakas með 180 ríkisborgara frá Venesúela og þá höfðu samanlagt 315 yfirgefið landið á þeim tímapunkti. Þann 4. desember birtist síðan frétt á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins þar sem sagt er frá fluginu hinn 15. nóvember 2023 og aðkomu Frontex og þar fram eftir götunum. Þar er jafnframt samt sagt frá því að það sé m.a. stefnt að öðru leiguflugi í janúar og vísað til þess að það sé fjölmennur hópur og miðað við þær tölur sem nefndar hafa verið og þá sem þegar höfðu farið, rétt um 1200 manns sem þá áttu eftir að fara til síns heima.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Fór þetta leiguflug með annan hóp til Karakas í janúar eins og ráð var fyrir gert þarna samkvæmt yfirlýsingu á vef heimasíðu dómsmálaráðuneytisins í byrjun desember 2023? Ef ekki, hvers vegna? Hvernig hefur gengið að koma þeim sem urðu fyrir áhrifum vegna þessarar breyttu afstöðu kærunefndar útlendingamála til síns heima? Eins og þarna kemur fram þá höfðu á þessum tímapunkti einungis 315, af 1.500 sem dómsmálaráðherra upplýsti um að þyrftu að fara hið snarasta til síns heima, farið heim. Hvernig hefur gengið síðan og hver urðu afdrif þessa áætlaða leiguflugs í janúar 2024?