154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

[15:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða aðeins við innviðaráðherra um grundvallarprinsipp þegar kemur að auðlindanýtingu, að auðlindum í eigu þjóðarinnar. Við höfum rætt, eins og hæstv. innviðaráðherra er fullkunnugt um, lagareldi, fiskeldisfrumvarp sem ég hefði nú haldið að ætti að fara í gegnum ákveðnar síur, fyrst í gegnum ríkisstjórnina og síðan í gegnum þrjá þingflokka. Það er eins og engin viðvörunarljós hafi kviknað við þessa yfirferð. Þetta er massíf slysaslepping á vondu frumvarpi sem hefur átt sér stað í gegnum þessa flokka. Við heyrum nú strax að sem betur fer eru alla vega nokkrir þingmenn að ranka úr rotinu og sjá þetta prinsipp sem m.a. við í Viðreisn styðjum eindregið, ekki bara almannahagsmunir framar sérhagsmunum heldur líka það að við afhendum ekki auðlindir þjóðarinnar ótímabundið. Við gefum heldur ekki auðlindir í eigu þjóðar, punktur.

Þannig að mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, af því að við þekkjum þetta og ráðherra var áður í matvælaráðuneytinu. Við þekkjum að það þarf auðvitað að tryggja atvinnugreinunum fyrirsjáanleika. Við þurfum að tryggja hér verðmætasköpun. Við þurfum að ýta undir sjálfbærni og gera allt til þess að það verði sjálfbærni í okkar atvinnugreinum. En það er ekki þannig að við látum bara peningana ráða, prinsippin verða líka að vera leiðarljós. Og þá er komið að því að við verðum að tryggja að auðlindir þjóðarinnar séu raunverulega á hennar forræði. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi lagt upp með þessa ótímabundnu samninga, ef hún gæti aðeins brugðið ljósi á forsöguna. En síðan hitt, sem er kannski mikilvægari spurning, hvort hún sé ekki sammála okkur í Viðreisn um að við förum í auðlindaákvæðið, að við setjum ekki bara af stað vinnu heldur förum með auðlindaákvæðið í gegnum þingið (Forseti hringir.) sem raunverulega tryggir tímabundin afnot af auðlindum í eigu þjóðarinnar, að við komum í veg fyrir (Forseti hringir.) að þau séu afhent ótímabundið um aldur og ævi. Styður ráðherra og Vinstri græn (Forseti hringir.) þetta, að við gerum þetta með ótvíræðum hætti og setjum inn ákvæði í stjórnarskrá sem tryggir auðlindir í eigu þjóðar?