154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

tekjuskattur.

918. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, barnabætur, sérstakur vaxtastuðningur.

Frumvarpið felur í sér tvenns konar breytingar á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Annars vegar er lagt til að barnabætur hækki og dregið verði úr tekjuskerðingum, með það að markmiði að fleiri foreldrar njóti stuðningsins. Hins vegar er lagt til að á árinu 2024 verði sérstakur vaxtastuðningur til heimila með íbúðalán ákvarðaður og greiddur inn á höfuðstól lána eða til að lækka afborganir lána. Þessar breytingar má rekja til stuðnings ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna langtímakjarasamninga á vinnumarkaði í mars 2024.

Efnahags- og viðskiptanefnd hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn gesti auk þess sem umsagnir bárust og gert er skilmerkilega grein fyrir því í nefndaráliti sem liggur frammi og hægt er að kynna sér en ég ætla ekki að rekja frekar hér.

Það kom fram þegar mælt var fyrir frumvarpinu og í umsögn sem nefndinni barst frá Skattinum að gert væri ráð fyrir því að lögin kæmu til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda í lok maí. Meiri hlutinn og raunar nefndin öll, vil ég segja, hefur lagt þetta til grundvallar við vinnslu málsins og telur brýnt að málið fái skjótan framgang.

Í umsögnum sem nefndinni bárust komu fram ábendingar um framkvæmd við greiðslu vaxtastuðningsins. Umsagnaraðilar bentu á að greiðsla stuðnings til einstaklinga sem kjósa að ráðstafa honum inn á afborganir yrðu flókið ferli og gæta þyrfti sérstaklega að villuhættum. Meiri hlutinn beinir því til þeirra stjórnvalda sem fara með framkvæmd laganna að huga að framangreindu þegar þeim verður framfylgt.

Ég ætla aðeins að rekja þær tillögur til breytinga sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til á frumvarpinu. Þær byggja á tillögum sem fram komu í minnisblöðum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Breytingartillögurnar varða allar b-lið 1. gr. frumvarpsins og eru til þess að veita skýra leiðsögn um framkvæmd við ákvörðun sérstaks vaxtastuðnings. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar tekur undir þessar tillögur ráðuneytisins og gerir að sínum.

Í fyrsta lagi er lögð til breyting er varðar orðalag 1. töluliðar b-liðar 1. gr. þannig að enginn vafi leiki á því að það er stofn til útreiknings stuðningsins sem skal vera 23% af vaxtagjöldum ársins 2023 en ekki stuðningurinn sjálfur fyrir skerðingar. Jafnframt sé það skýrt að hámarksfjárhæðir ákvæðisins eiga við um stuðninginn að loknum skerðingum.

Í öðru lagi er lögð til breyting er varðar 5. tölulið b-liðar 1. gr. Fjármála- og efnahagsráðuneytið benti á í minnisblaði sínu á að sú staða kunni að koma upp að aðili sem valið hefur að sérstakur vaxtastuðningur skuli koma til lækkunar á afborgunum, húsnæðisláns, endurfjármagni eða greiði lánið upp eftir að stuðningur er hafinn en áður en honum er lokið. Því er lögð til sú breyting að við þær aðstæður skuli sú fjárhæð sérstaks vaxtastuðnings sem þá stendur eftir greiðast inn á það lán sem sætir uppgreiðslu eða endurfjármögnun og ef við á til greiðslu uppgreiðslugjalds.

Í þriðja lagi er lögð til breyting er varðar 7. tölulið b-liðar 1. gr.. Nauðsynlegt er að það komi skýrt fram í ákvæðinu sjálfu að réttur til sérstaks vaxtastuðnings fellur niður í lok ársins 2024. Þannig er ákvörðun sérstaks vaxtastuðnings bundin við árið 2024, þ.e. frumákvörðun við álagningu 2024, breytingar vegna kæru á þeirri álagningu og eftir atvikum leiðréttingar, allt innan ársins 2024. Við teljum að hér sé verið að gera þetta skýrara með þessum breytingum.

Að lokum er í fjórða lagi lögð til breyting er varðar tímamörk. Lagt er til að við 6. tölulið b-liðar 1. gr. bætist við nýr málsliður þess efnis að Fjársýslunni verði á tímabilinu 1.–31. desember 2024 sendar upplýsingar að lokinni kærumeðferð og leiðréttingum samkvæmt ákvæðum tekjuskattslaga. Jafnframt er fallist á ábendingar sem fram komu í umsögnum Landssamtaka lífeyrissjóða og Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu um að frestur lánveitanda til að ráðstafa greiðslum inn á höfuðstól verði rýmkaður. Er því lagt til að miðað verði við að Fjársýslan greiði sérstakan vaxtastuðning og miðli upplýsingum, annars vegar á tímabilinu 1.–15. ágúst til lánveitanda sem ráðstafar greiðslum beint inn á lán og hins vegar á tímabilinu 16.–31. ágúst vegna afborgana, sbr. 2. málslið 6. töluliðar b-liðar 1. gr., í stað fimm virkra daga frá móttöku eins og segir í frumvarpinu.

Þá eru að auki lagðar til minni háttar orðalagsbreytingar sem m.a. skýrast af þeim breytingum sem lagðar eru til, til þess að þetta passi nú allt efnislega og málfræðilega en þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar hér. Vísast að öðru leyti til ítarlegrar umfjöllunar um breytingartillögur í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hér hefur verið gerð grein fyrir og lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Undir nefndarálit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Teitur Björn Einarsson, Ágúst Bjarni Garðarsson, Diljá Mist Einarsdóttir og Jóhann Friðrik Friðriksson.

Frú forseti. Líkt og fram kom í upphafi míns máls má rekja tilefni frumvarps þessa til stuðnings ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga við langtímakjarasamninga á vinnumarkaði og aðgerða þeirra til að styðja við sameiginleg markmið stjórnvalda og samningsaðila um að leggja grundvöll að bættum lífskjörum og kaupmætti launafólks og stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta. Það er megintilgangur þessa frumvarps. En mig langar að taka það hér fram að nefndinni hafa borist frekari ábendingar frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu þar sem lagðar eru til frekari breytingar á 6. málslið 6. töluliðar b-liðar 1. gr., sem eru ekki partur af þeim breytingartillögum sem hér hafa verið kynntar, þ.e. að 6. málsliður 6. töluliðar b-liðar 1. gr. orðist sem svo að ráðstafi lánveitandi ekki greiðslu inn á afborganir í samræmi við ákvæði þetta skal hann ráðstafa greiðslu inn á lán, en sé honum það ekki unnt skal hann endurgreiða Fjársýslunni þá fjárhæð sem ekki var ráðstafað. Breytingin er til hagsbóta fyrir einstaklinga og er ákveðinn varnagli ef upp skyldu koma einhvers konar örðugleikar við að ráðstafa greiðslu inn á afborganir.

Í ljósi þess að þessi ábending barst nefndinni seint þá legg ég það til, til þess að nefndinni gefist færi á að fara yfir þessa breytingu, þá gangi málið til nefndar milli 2. og 3. umræðu, en að þessari umræðu lokinni þá greiðum við atkvæði um þær breytingartillögur sem hér og nú liggja fyrir.