154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Það særir réttlætiskennd þjóðarinnar þegar gæði landsins eru afhent fáeinum til nýtingar án þess að þjóðin fái eðlilegt endurgjald. Þess vegna erum við að upplifa mikla reiði í samfélaginu núna vegna þeirra fyrirætlana sem ríkisstjórnin birtir í framlögðu frumvarpi um lagareldi. Þar er ætlunin að afhenda þeim, sem nú hafa komið sér fyrir í fjörðum landsins með umdeilt fiskeldi, heimild til að halda úti starfsemi sinni um aldur og ævi. Hingað til hafa þessi fyrirtæki haft tímabundið leyfi til 16 ára en nú á að gera þessar heimildir ótímabundnar, varanlegar, eilífar. Það er eðlilegt að þjóðinni sé misboðið þegar stjórnvöld leyfa sér að standa í eins grímulausri sérhagsmunagæslu og birtist í þessu frumvarpi. Þjóðin er orðin þreytt á því að láta misnota sig með þessum hætti. Allt frá því að framsal aflaheimilda var heimilað hefur þessi sérhagsmunagæsla verið við lýði. Örfáir útvaldir nýta náttúruauðlindir í eigu þjóðarinnar eins og þeim hentar og aðrir eru útilokaðir. Er nema von að þjóðinni svíði það þegar svokölluð kvótaeign gengur kaupum og sölum og erfist milli kynslóða sem fá milljarða í heimanmund og geta gert það sem þeim sýnist fyrir sameiginlegar náttúruauðlindir? Á sama tíma eru endalausir biðlistar eftir þjónustu hvert sem litið er og margar fjölskyldur geta ekki stöðu sinnar vegna veitt börnum sínum það sem eðlilegt getur talist. Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að tryggja skýran lagaramma utan um nýtingu náttúruauðlinda, allra náttúruauðlinda, þar sem kveðið er á um tímabundna nýtingu og auðlindagjald til þjóðarinnar. Það á við um þetta og það á líka við um vindinn svo að virkjun á honum verði ekki að villta vestrinu.

Virðulegur forseti. Nýting sameiginlegra náttúruauðlinda þjóðarinnar (Forseti hringir.) má aldrei verða varanleg og það er nauðsynlegt að úthlutun þeirra sé í samræmi við vilja eigandans; okkar.