154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Píratar jarðtengja alla sína umhverfis- og loftslagsstefnu með varúðarreglunni, þeirri grundvallarreglu umhverfisréttar sem krefst þess að við ígrundum vandlega allar ákvarðanir sem geta haft neikvæð áhrif á náttúru og lífríki. Píratar vita að til þess að takast á við loftslagsvandann þurfum við að breyta viðmiðum samfélagsins þannig að vöxtur þess sé í sátt við umhverfi og náttúru. Við vitum að náttúran hlustar ekki á útúrsnúninga og undanþágur og að til þess að ná árangri fyrir framtíðarkynslóðir þarf nýja nálgun í stjórnmálum og í hagkerfinu. Núverandi ríkisstjórn skilur ekki þetta samhengi hlutanna og lætur eins og loftslagsvandinn sé eitthvert tæknilegt úrlausnarefni og talar eins og loftslagsvandinn sé bara spurning um fleiri virkjanir og meiri raforkuframleiðslu. Á peppfundi Sjálfstæðisflokksins eftir páska gekk varaformaður flokksins t.d. svo langt að segja: Við þurfum ekki fleiri áætlanir um minni losun, við þurfum bara að virkja, virkja, virkja.

Forseti. Í landi eins og Íslandi sem framleiðir meira af endurnýjanlegri raforku en nokkurt annað ríki þá er loftslagsvandinn ekki orkuvandi nema í hugum stjórnmálafólks sem á erfitt með að átta sig á stóru myndinni; að loftslagsvandinn krefst þess að við verndum líffræðilegan fjölbreytileika og náttúruna til framtíðar. Píratar eru aftur á móti mjög meðvitaðir um þær kröfur sem framtíðarkynslóðir geta með réttu gert til okkar sem förum með völdin í samfélagi dagsins í dag. Við þurfum réttlát umskipti þar sem allir geta verið með. Við verðum að framleiða minna drasl og meiri gæði og við verðum fyrst og fremst að vernda firði okkar, líf á landi og sjó frá óafturkræfum skaða. Aðeins þannig getum við horft stolt um öxl og skilið jörðina eftir fyrir börnin okkar.