154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

skert þjónusta hjá meðferðarstöðinni Vík .

[15:45]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Þetta er ofur einfaldlega svona: Það verður lokað í sumar og það er of seint að snúa því við, skilst mér, vegna þess að fólk gerir sínar ráðstafanir í tíma og það er voðalega erfitt að fara að bregðast við því í maí, eftir því sem mér skilst og fæ upplýsingar um hjá SÁÁ. Mér finnst þetta mjög dapurlegt. Mér finnst þetta eiginlega ramma inn það sem kemur fram í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar, og þá tengt ópíóíðafaraldrinum, að það skorti ákveðna heildarsýn, að þeir sem stýra málaflokknum sjái almennilega hvað er í gangi innan hans. Ég sætti mig heldur ekki við að verið sé að vísa í samtal SÁÁ við Sjúkratryggingar eða í starfshópa sem eru að störfum, einfaldlega vegna þess að við vitum að það eru ákveðin verkefni sem við þurfum að vinna í dag, algerlega óháð því hver verður niðurstaðan úr samtali við Sjúkratryggingar eða hver verður niðurstaða starfshóps. Það þarf að halda ákveðinni starfsemi gangandi þrátt fyrir að einhver vinna sé í gangi. Við getum ekki sagt við fólk: Þú færð ekki þjónustu (Forseti hringir.) vegna þess að Sjúkratryggingar og SÁÁ eru ekki búin að semja. Eða: Þú færð ekki þjónustu vegna þess að það er starfandi starfshópur.(Forseti hringir.)

Mér finnst sérkennilegt að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi ekki fengið neinar upplýsingar um þetta og mig langar að fá þá bara alveg á hreint: Er þetta ekki bara ofur einfaldlega til marks um það (Forseti hringir.) að það er ekki nægjanlega vel verið að fylgjast með því sem er í gangi í þessum málaflokki og það bitnar á fárveiku fólki?