154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

skert þjónusta hjá meðferðarstöðinni Vík.

[15:41]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Ég fékk það staðfest núna áðan að SÁÁ lokar meðferðarstöðinni Vík í sumar vegna fjárskorts og göngudeildinni líka. Enn og aftur þarf að loka í sex vikur. Fólk sem leitar sér aðstoðar á Vogi í sumar fær sem sagt ekki neina samfellu í sinni meðferð. Eftir tíu daga á Vogi tekur ekkert við, hvorki göngudeild né Vík, fyrr en eftir dúk og disk. Í dag eru 700 manns á biðlista hjá SÁÁ og um 100 manns á biðlista hjá Krýsuvík. Sumarlokun í sex vikur bætir enn á þann vanda. Þetta er ekkert annað en skeytingarleysi gagnvart mjög veiku fólki og ég ætla að leyfa mér að nota þetta orð, skeytingarleysi, vegna þess að ég spurði hæstv. heilbrigðisráðherra í haust, skömmu eftir sumarlokun, hvort hann gæti ekki tryggt að þetta myndi ekki gerast aftur. Mér fannst hæstv. ráðherra svara þessu nokkuð afgerandi, með leyfi forseta:

„Jú, við eigum alveg að geta haldið meðferðarstöðinni Vík opinni vegna þess að staðreyndin er sú að þetta myndi kosta innan við 1% af ríkisframlagi. Það á ekki að standa í neinum. […] Ég er bara að segja að ég er alltaf tilbúinn til samtals og hef spurt af hverju og hvað þurfi til að halda þessu gangandi.“

Þrátt fyrir þessi orð þá verður aftur lokað. Þetta gerist þrátt fyrir að við séum með nýja skýrslu frá Ríkisendurskoðun sem er ekkert annað en samfelldur áfellisdómur yfir þessari ríkisstjórn og ríkisstjórnum sem á undan komu í þessum málaflokki. Ég veit að það er búið að skipa starfshóp, sem er mjög gott, en það þarf að reka kerfið og það þarf að þjónusta fólk á meðan starfshópar vinna. Fólk veikist þótt hópar séu að störfum.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig standi á því að okkar veikasta fólk horfir nú enn og aftur fram á skerta þjónustu í sumar. Af hverju tryggði hæstv. ráðherra ekki að hægt væri að halda opnu eins og hann þó sagðist ætla að gera? Þetta er ofur einfaldlega banvænn sjúkdómur og hann fer ekki í sumarfrí. Hver er skýringin á þessu?