154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

skaðaminnkandi úrræði fyrir fólk með fíknivanda.

[15:36]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttir Gunnarsdóttir fyrir að taka þetta mál hér upp, úrræði til skaðaminnkunar sem geta verið fjölmörg og er kannski eitthvað sem við höfum ekki gert nægilega mikið af í gegnum tíðina og af því að hv. þingmaður gaf sér að ég myndi koma inn á stefnumörkun og þann starfshóp sem er að vinna að stefnumörkun í þessum málaflokki þá stend ég auðvitað alveg föstum fótum á því að það hefðum við þurft að gera fyrr og vinna markvisst að skaðaminnkun. Hv. þingmaður setur þetta í samhengi við atvik sem átti sér stað um helgina og svo starfsleyfi læknis sem landlæknir afnam. Ég hef nú ekki sérstakar tölur yfir það hvort einhverjum ránum hafi fjölgað undanfarið en þetta atvik átti sér stað og þar var verið að sækjast eftir lyfjum, að mér skilst. Það hafa engin úrræði í sjálfu sér verið stöðvuð og við vitum alveg af skaðaminnkandi úrræðum eins og Frú Ragnheiði og VOR-teymi Reykjavíkurborgar, þó að einn læknir hafi verið sviptur starfsleyfi og það er erfitt að draga of víðtækar ályktanir af því. Það var reynt að grípa inn í og greina þann hóp sem hafði notið atbeina læknisins með til að mynda vettvangs- og ráðgjafarteymi Reykjavíkurborgar. Það tók við hluta af þessum skjólstæðingum og sama með Landspítalann, hann tekur á móti fjölmörgum í viðhaldsmeðferð og SÁÁ sömuleiðis. (Forseti hringir.) Það er auðvitað mjög mikilvægt að við vinnum markvisst að skaðaminnkandi úrræðum í samfélaginu.