154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

ótímabundið rekstrarleyfi til sjókvíaeldis.

[15:30]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en með fullri virðingu þá er það auðvitað alger hundalógík að halda því fram að ótímabundin leyfi séu einhvers konar forsenda þess að með góðu móti sé hægt að beita viðurlögum, að það sé með einhverjum hætti íþyngjandi í sjálfu sér, eins og reyndar hæstv. matvælaráðherra komst að orði í fjölmiðlum núna fyrir helgi, að veita leyfi með tímabundnum hætti þegar við erum að tala um sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Raunar tíðkast það bara almennt þegar kemur að auðlindanýtingu að ráðstöfunarréttur sé tímabundinn. Þannig eiga hlutirnir að vera. En ég fagna þessum viðsnúningi sem hér kemur fram af hálfu hæstv. ráðherra, að hann sé reiðubúinn að skoða það að (Forseti hringir.) leyfin verði frekar tímabundin.

En eftir stendur spurningin: Hvernig í ósköpunum datt hæstv. ríkisstjórn í hug að leggja málið fram með þessum hætti? Ég held að þjóðinni blöskri beinlínis (Forseti hringir.) að hér hafi málið í alvörunni verið borið á borð í þessari mynd, að gefin skyldu út (Forseti hringir.) ótímabundin rekstrarleyfi til þessara fyrirtækja. Það verður enginn friður um það.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum er tvær mínútur í fyrri ræðu og ein mínúta í síðari ræðu en ekki ein og hálf mínúta.)