154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

nýtt örorkulífeyriskerfi og fjármögnun kjarasamninga.

[15:20]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegur forseti. Hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur verið ötull við að kynna nýja væntanlega almannatryggingalöggjöf sem hefur nú verið frestað gildistöku á til 1. september árið 2025. Það liggur nokkuð ljóst fyrir að þrátt fyrir að vera í rauninni að kynna þetta frumvarp svona, myndi ég segja, löngu fyrir tímann, þá segir það meira en segja þarf ef maður vill vita eiginlega um hugarfarið sem liggur að baki. Hér eru nýgengnir kjarasamningar. Til þess að greiða loforð ríkisstjórnarinnar í þeim kjarasamningum þá kemur fram í fjármálaáætlun að það skuli í rauninni mæta kostnaðinum með því að fresta þeim fjármunum sem átti að veita til þess að hækka lægstu launin, til að lyfta öryrkjum örlítið úr sárafátæktinni og pínulítið upp í kannski eitthvað sem væri nær því að vera fátækt. Þarna á að spara sennilega um 10 milljarða kr. þannig að það eru öryrkjar af öllum sem eiga að greiða fyrir þessar kjarabætur sem ríkissjóður hefur skuldbundið sig til þess að gera þegar ríkið stígur inn í kjarasamningana. Ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra finnist öryrkjar hafa það gott að það megi beygja þá aðeins meira, að þeir í sinni sárafátækt hafi efni á því að stíga inn í kjaraviðræður og loforð ríkisstjórnarinnar og það megi draga það að koma með hækkun á þeirra lágmarksframfærslu um heila 10 milljarða kr. Í öðru lagi: Heldur hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra að það muni lenda í hans höndum að standa við breytingarnar á þessu frumvarpi þegar loksins að því kemur eða er þetta hallærislegt kosningaloforð?